Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LIF, kom til Reykjavíkur í gær eftir að hafa verið frá miðjum janúar í skoðun sem fór fram í Noregi. Með komu TF-LIF til landsins er Landhelgisgæslan á ný með þrjár þyrlur til taks.

Skoðunin sem framkvæmd var á þyrlunni kallast G-skoðun og tóku starfsmenn flugtæknideildar Landhelgisgæslunnar þátt í verkinu. Gæðakröfur gera ráð fyrir að G-skoðun fari að jafnaði fram á 12 ára eða 7500 flugtíma fresti.

Var þetta í fyrsta sinn sem TF-LIF fór í skoðun sem þessa en hún er sú umfangsmesta sem þessar þyrlur fara í gegnum. Þyrlan var öll tekin í sundur, skrokkur hennar og fylgihlutir skoðaðir af nákvæmni og viðgerðir með tilliti til sprungumyndana og tæringar. Í lok skoðunar var vélin svo máluð og hefur hún nú fengið nýtt útlit.

Frá þessu er skýrt á vef Landhelgisgæslunnar.