Á aðalfundi Síldarvinnslunnar hf. sem haldinn var fimmtudaginn 5. september síðastliðinn urðu þau tímamót að konur voru í fyrsta sinn kjörnar í stjórn og varastjórn félagsins. Þær Anna Guðmundsdóttir og Björk Þórarinsdóttir voru kjörnar í aðalstjórn og Arna Bryndís Baldvins McClure í varastjórn. Þetta kemur fram á vef Sildarvinnslunnar.

Á aðalfundinum var samþykkt að fjölga stjórnarmönnum úr þremur í fimm en kynjahlutföllin í nýju stjórninni eru í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga.

Hin nýkjörna  stjórn Síldarvinnslunnar er þannig skipuð:
Anna Guðmundsdóttir
Björk Þórarinsdóttir
Freysteinn Bjarnason
Ingi Jóhann Guðmundsson
Þorsteinn Már Baldvinsson

Varamenn:
Arna Bryndís Baldvins McClure
Halldór Jónasson

Síldarvinnslan var stofnuð 11. desember 1957 þannig að konur koma fyrst að stjórnun félagsins eftir 56 ára starf. Það eru svo sannarlega ánægjuleg tíðindi, segir á vef Síldarvinnslunnar.