Miklar annir eru nú í sjávarútvegsmálum í Brussel. Í vikunni munu sjávarútvegsráðherrar ESB-ríkja setjast niður og ákveða kvóta næsta árs fyrir Norðursjó og Atlantshaf, að því er segir á vefnum fishupdate.com.
Haft er eftir Richard Benyon, sjávarútvegsráðherra Breta, að í hönd fari 48 klukkustunda strangar og sveittar samningaviðræður. Þessir fundir séu þekktir fyrir að vera þriggja skyrta lota!
Í dag, þriðjudaginn 18. desember, mun Evrópuþingið einnig greiða atkvæði um nýtt fyrirkomulag við ákvörðun heildarkvóta. Er það liður í endurbótum á fiskveiðistefnu ESB. Lagt er til að hætt verði við árlega 48 stunda samningarlotu en þess í stað verði unnið eftir fyrirframgerðri áætlun til nokkurra ára. Ef slík áætlun liggur ekki fyrir verður ráðherrunum skylt að fylgja vísindalegri ráðgjöf sem miðar að sjálfbærum veiðum.