Skaginn hf. og Kælismiðjan Frost ehf. hafa undirritað samning við nýtt félag í Færeyjum, P/f Pelagos, um kaup þess á nýju uppsjávarvinnslukerfi til uppsetningar í Fuglafirði á aðeins rúmlega sex mánuðum. Heildarverðmæti samningsins er rúmir þrír milljarðar króna.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Vinnsla hefst í Fuglafirði strax í ágúst nk. og miðast afköst við 600 tonn á sólarhring. Stefnt er að því að auka afköstin í 1000 tonn. Ýmsar nýjungar munu birtast í nýju verksmiðjunni í Fuglafirði sem auka afköst og gæði vinnslunnar.
Kælismiðjan Frost ehf. annast alla uppbyggingu á frystikerfi verksmiðjunnar en systurfyrirtækin Skaginn hf. og Þorgeir & Ellert hf. leiða vinnu við byggingu verksmiðjunnar ásamt Kælismiðjunni Frosti ehf. og 3X Technology á Ísafirði. Kaupendurnir sjá um uppbyggingu húsnæðisins í samræmi við innri hönnun Skagans hf.
Verksmiðjan í Fuglafirði verður byggð upp á svipaðan hátt og hjá Varðinn Pelagic á Tvøroyri sem Skaginn hf. afhenti árið 2012. Hún tók á móti um 100 þús. tonnum af hráefni á síðasta heila rekstrarári sínu.