Sala á laxi í Bretlandi fór í fyrra upp 1,5 milljarð punda, jafnvirði nærri 260 milljarða króna.
Þetta kemur fram í vefritinu salmonbusiness.com sem kveður laxinn þannig halda stöðu sinni sem leiðandi vara í sjávarafurðum. Salan jókst um 5,5 prósent milli ára miðað við 2,9 prósent aukningu milli áranna þar á undan. Nú er lax sagður vera 31 prósent af heildarverðmæti selds fisks í Bretlandi, það sé nærri þrefalt meira en verðmæti þeirrar tegundar sem næst kemur, þorsks, á þessum markaði.
Góð sala endurspegli traust neytenda
Áfram segir að magnið hafi einnig aukist, eða um 5,8 prósent, upp í 73.405 tonn. Laxinn sé einnig mest selda fiskafurðin mælt í magni meðal Breta. Eitt af hverjum fimm seldum tonnum af fiski sé lax sem undirstriki stöðu þessa eldisfisks sem vinsællar uppsprettu próteins með lágt kolvetnishlutfall. source of protein.
„Þrátt fyrir herferðir aðgerðasinna nýtur iðnaðurinn áfram trausts neytenda,“ er vitnað á salmonbusiness.com til tilkynningar frá Salmon Scotland, sem eru hagsmunasamtök í greininni. Ennfremur segir að skoskur eldislax haldi stöðu sinni sem stærsta útflutningsmatvara Bretlands. Salan til útlanda hafi aukist um 45 prósent í fyrra og verðmætið hafi verið 844 milljónir punda. Haft er eftir Tavish Scott hjá Salmon Scotland, að þetta endurspegli áframhaldandi traust á gæðum skosks lax og aðferðum við framleiðslu hans.