Veiðar íslenskra skipa á kolmunna í færeyskri lögsögu hafa gengið misjafnlega. Veður hefur hamlað veiðum og í gærmorgun var komin haugabræla, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Faxi RE var að leita vars við Suðurey í gærmorgun er Fiskifréttir náðu tali af Karli Ferdinandssyni, stýrimanni. Hann sagði að þeir hefðu fengið frá 170 tonnum í holi uppi í 380 tonn í veiðiferðinni. Sum íslensku skipanna hefðu náð því að fá um 450 til 500 tonn í holi. „Veiðarnar eru talsvert rólegri en í fyrravor. Þá voru líka færri skip á slóðinni. Ásóknin er miklu meiri núna þótt skipunum hafi eitthvað fækkað frá því sem var þegar veiðarnar hófust,“ sagði Karl.

Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu höfðu íslensk skip landað um 70 þúsund tonnum af kolmunna um miðja vikuna sem er um þriðjungur af 215 þúsund tonna heildarkvóta.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.