Norskur fiskiðnaður getur ekki án innflutts vinnuafls verið fremur en íslenskur. Samkvæmt nýjustu opinberum tölum í Noregi starfa liðlega 15.000 manns við vinnslu á hvítfiski, laxi og öðru eldisfiski, þar af eru um 5.000 með erlent ríkisfang.
Forsvarsmenn í norskum sjávarplássum fagna útlendingunum til starfa en í mörgum tilfellum eru þeir aðeins ráðnir í vertíðarbundin störf í nokkra mánuði fyrir milligöngu sérstakra ráðningarstofa. Ef erlendur ríkisborgari staldrar aðeins við í innan við þrjá mánuði og er ráðinn með þessum hætti er ekki litið á hann sem íbúa staðarins.
Í Fiskeribladet/Fiskaren er tekið dæmi af smáplássinu Måsöy í Finnmörku. Þangað eru ráðnir 120 farandverkamenn á vertíð sem jafngildir yfir 10% af heildaríbúafjölda staðarins. Þeir eru ekki taldir með þegar kemur að dreifbýlisstyrkjum ríkisins sem miðaðir eru við íbúafjölda og því verður sveitarfélagið af tekjum.
Því má bæta við að á Íslandi eru 3.700 heilsdagsstörf í fiskvinnslu og er talið að um fjórðungi þeirra sé sinnt af fólki með erlent ríkisfang.