Meðal þeirra breytinga sem lagt er til í drögum að frumvarpi um áhafnir skipa er að kveðið verði skýrar á um mönnun smáskipa. Sitt sýnist þó hverjum um tillögurnar, sem hafa verið til kynningar undanfarið í Samráðsgátt stjórnvalda.
Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna og nefndarmaður í Rannsóknarnefnd samgönguslysa, lýsir ánægju með að verið sé að einfalda regluverkið um áhafnir íslenskra skipa. Hins vegar séu frumvarpsdrögin ófullkomin, meðal annars hvað varðar orðaval:
„Mikill ruglingur er settur fram um stöðuheiti vélstjóra í þessum drögum,“ segir Hilmar. Í orðskýringum sé fjallað um annan vélstjóra og fyrsta vélstjóra en samkvæmt þeim sé samt um sömu stöðu að ræða. Þá sé einnig rætt um fyrsta vélstjóra þar sem fjallað er um undirvélstjóra.
Mikilvæg öryggissjónarmið
Hilmar varar einnig við því að slakað sé á kröfum um vinnutíma:
„Á undanförnum árum hefur Rannsóknarnefnd samgönguslysa fengið mörg mál til rannsóknar þar sem stjórnandi hefur sofnað við stjórnvölinn eftir að vökutími hans er kominn umfram það sem eðlilegt þykir,“ segir hann. „Með því að heimila eiganda að vera eins lengi og honum langar til einum á sjó bíður það sannarlega hættunni heim.“
Landhelgisgæslan gerir sömuleiðis athugasemdir við að ekki eigi að þurfa stýrimann um borð þegar eigandi er lögskráður sem skipstjóri.
„Að baki 14 tíma reglunni liggja öryggissjónarmið,“ og sömu sjónarmið segir Landhelgisgæslan að eigi við hvað varðar ákvæði um vinnu- og hvíldartíma, „þ.e. að ekki sé réttlætanlegt að draga úr öryggissjónarmiðum þegar svo stendur á að lögskráður skipstjóri er jafnframt eigandi.“
Önnur sjónarmið
Önnur sjónarmið er þó að finna í umsögn frá Örvari Marteinssyni, formanni Samtaka smærri útgerða. Hann bendir á að þótt í sjómannalögum sé gert ráð fyrir því að hámarksvinnutími fari ekki yfir 14 klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili þá segi þar „ekkert um það hversu lengi menn mega vera úti á sjó sé þess gætt að þeir fái lögbundna hvíld samtals 10 klst á hverjum 24 tímum.“
Hann tekur dæmi af línuveiðum þar sem róður með 36 bala getur tekið 12 til 16 tíma ef allt gengur vel: „Það fer eftir því hversu langt er farið. Ef eitthvað kemur upp á, lína slitnar eða anna, þá má reikna með lengri tíma.“ Verklagið hafi verið þannig að menn hvíli sig í að minnsta kosti fjóra tíma eftir að línan hefur verið lögð, en ef einblínt er á 14 tímana þá sé „augljóst að það verður að byrja strax að draga og þá missa menn af þessari hvíld. Þannig getur þetta virkað öfugt.“
Þeir sem eru á handfærum þurfi oft að sigla langt, eða 30 til 40 sjómílur, og þá séu menn venjulega „í handfæraróðri í tvo daga í einu til þess að nýta tímann betur. Þannig spara menn sér 6-8 klukkutíma siglingu í hverjum róðri. Sá tími nýtist til veiða og hvíldar því yfirleitt er góð aðstaða til að hvílast og sofa um borð.“
Með þessu náist líka aukin hagkvæmni því olíueyðslan á hvert kíló verði minni, eða um einn desilítri á kíló ef menn mega vera lengur í róðri í stað þriggja desilítra á kíló er aðeins má vera 14 tíma.
Sótt að smábátaútgerð
Landssamband smábátaeigenda (LS) segir þarna hreinlega sótt að smábátaútgerð hér við land. Breytingarnar muni hafa „gríðarleg áhrif á starfsumhverfi smábátaútgerðarinnar“ og einstaka útgerðir muni „ekki sjá sér fært að starfa í því umhverfi sem óbreytt frumvarp mundi leiða af sér.“
Starfsumhverfi smábátaútgerðarinnar rúmi ekki „að skylt sé að hafa stýrimann í áhöfn“ og kjarasamningur LS og sjómannastakanna frá 2012 sé „ótvíræð sönnun þess. Í samningnum er ekki minnst á starfsheitið, stýrimaður.“