Á síðasta ári þrefaldaðist útflutningur á síldarflökum frá Íslandi til Rússlands samanborið við árið á undan eða úr 7.000 tonnum í 23.000 tonn. Þetta kom fram í tölum frá norska greiningarfyrirtækinu Kontali sem birtar voru á ráðstefnunni North Atlantic Seafood Forum í Björgvin í Noregi.

Það fylgdi með að Ísland hefði notið góðs af því að vera undanþegið innflutningsbanni Rússa sem neytt hefði Norðmenn til þess að finna nýja markaði fyrir 50.000 tonn af síld frá Noregi.

Þá kom fram að verð á íslenskum síldarflökum hefði lækkað úr 225 kr/kg í 175 kr/kg milli áranna 2013 og 2014 og verð á heilfrystri síld úr 150 kr/kg í 130 kr/kg.

Þetta kemur fram á vefnum Undercurrentnews.com