Þórunn Þórðardóttir HF, nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, er lagt af stað frá Vigo á Spáni áleiðis til Íslands og var fyrir stundu statt vestarlega í Biscayflóa. Skipið var sjósett um miðjan október 2023 og gekkst undir siglinga- og búnaðarprófanir í nóvember á síðasta ári en dráttur hefur orðið á afhendingunnni sem fyrst var áætluð í í október 2024.

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir að veðurspá sé slæm þannig að nákvæm heimkoma sé ekki komin. Skipið komi þó til Íslands í næstu viku, fyrri eða seinni part hennar.
Þórunn Þórðardóttir HF 300 mun leysa af hólmi Bjarna Sæmundsson HF 30 sem hefur þjónað sem hafrannsóknaskip í 55 ár.

Skipið er nær 70 m langt og um 13 m breitt. Við hönnun skipsins var áhersla lögð á að skipið yrði eins umhverfisvænt og sparneytið og unnt er, en um er að ræða tvíorkuskip með rafknúnum skrúfum. Meginorkugjafi er olía en einnig eru stórar rafhlöður um borð sem stuðla að betri orkunýtingu. Skipið dregur nafn sitt af Þórunni Þórðardóttur sem var fyrsta íslenska konan með sérfræðimenntun í hafrannsóknum og var m.a. frumkvöðull í rannsóknum á frumframleiðni smáþörunga í hafinu við Ísland.