Þórunn Þórðardóttir HF, nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, er lagt af stað frá Vigo á Spáni áleiðis til Íslands og var fyrir stundu statt vestarlega í Biscayflóa. Skipið var sjósett um miðjan október 2023 og gekkst undir siglinga- og búnaðarprófanir í nóvember á síðasta ári en dráttur hefur orðið á afhendingunnni sem fyrst var áætluð í í október 2024.

Þórunn Þórðardóttir í smíðum í Vigo.
Þórunn Þórðardóttir í smíðum í Vigo.

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir að veðurspá sé slæm þannig að nákvæm heimkoma sé ekki komin. Skipið komi þó til Íslands í næstu viku, fyrri eða seinni part hennar.

Þór­unn Þórðardótt­ir HF 300 mun leysa af hólmi Bjarna Sæ­munds­son HF 30 sem hef­ur þjónað sem haf­rann­sókna­skip í 55 ár.

Þórunn Þórðardóttir fiskifræðingur sem skipið er kennt við.
Þórunn Þórðardóttir fiskifræðingur sem skipið er kennt við.

Skipið er nær 70 m langt og um 13 m breitt. Við hönnun skipsins var áhersla lögð á að skipið yrði eins um­hverf­i­s­vænt og spar­neytið og unnt er, en um er að ræða tví­orku­skip með raf­knún­um skrúf­um. Meg­in­orku­gjafi er olía en einnig eru stór­ar raf­hlöður um borð sem stuðla að betri ork­u­nýt­ingu. Skipið dregur nafn sitt af Þór­unni Þórðardótt­ur sem var fyrsta ís­lenska kon­an með sér­fræðimennt­un í haf­rann­sókn­um og var m.a. frum­kvöðull í rann­sókn­um á frum­fram­leiðni smáþör­unga í haf­inu við Ísland.