Aflaskipið Þórunn Sveinsdóttir VE er nú í lengingu í Karstensen skipasmíðastöðinni í Skagen í Danmörku þar sem það var smíðað árið 2010 fyrir útgerðarfélagið Ós ehf. í Vestmannaeyjum. Skipið hefur verið skorið í tvennt og bætt hefur verið við það 6,6 metra lenging. Að framkvæmdum loknum verður pláss fyrir kör í lest fer pláss fyrir kör í lest úr 360 í 560 kör.
Gylfi Sigurjónsson, sonur Sigurjóns Óskarssonar, útgerðarmanns Þórunnar Sveinsdóttur, fylgist með framkvæmdunum á staðnum. Hann segir virkilega góðan gang í verkinu. Fjöldi manns séu að störfum og kvaðst hann telja mjög líklegt, miðað við framganginn í verkinu, að því verði lokið á tilskyldum tíma.
Gylfi segir að mikil vinna sé þó eftir þegar bútnum hefur verið skeytt við búkinn. Þá standi eftir allar klæðningar, lagnafrágangur og margt fleira.
Þórunn Sveinsdóttir var 40 metrar á lengd og 11,2 metrar á breidd þegar henni var hleypt af stokkunum en verður 46,6 metrar þegar verkinu í Danmörku lýkur. Útgerðin hefur leigt til sín ísfisktogarann Bylgju VE meðan á lengingu skipsins stendur.
Á þeim átta árum sem skipið hefur verið í eigu Óss ehf. hefur það fiskað um 40.000 tonn og aflaverðmætið er um 10,5 milljarðar króna. Eigendur fá skipið afhent 15. júní næstkomandi.