Matvælasjóður veitir 480 milljónum króna til 62 verkefna í fyrstu úthlutun sinni. Alls bárust sjóðnum 266 umsóknir að þessu sinni um styrki upp á 2,7 milljarða króna.
Matvælasjóður var stofnaður með lögum síðastliðið voru og tekur hann við hlutverki tveggja sjóða sem heyra nú sögunni til, en þeir eru AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi og Framleiðnisjóður landbúnaðarins.
Fjölmargar úthlutanir koma til verkefna sem eru tengd hafinu og sjávarútvegi með ýmsum hætti. Þar á meðal má nefna að Síldarvinnslan á Neskaupstað fær styrk upp á 22,6 milljónir fyrir að vinna í samstarfi við Laxá prótein úr aukaafurðum makríls, og Marpet ehf. fær styrk upp á 8 milljónir fyrir að framleiða í samvinnu við Skinney-Þinganes heilsusnarl úr síld fyrir gæludýr.
Sjóðnum og úthlutunum úr honum er skipt upp í fjóra flokka eftir því hversu langt verkefnin eru á veg komin. Fyrrnefnd verkefni Síldarvinnslunnar og Marpets eru bæði í flokki þeirra sem eru langt á veg komin, en meðal þeirra sem verkefna sem styst eru á veg komin má nefna að fyrirtæki sem heitir FLAK ehf. hlaut styrk upp á 3 milljónir fyrir verkefni sem nefnis Sjósa, en það snýst um fiski- og þörungasósur. Icecal hlýtur einnig styrk upp á þrjár milljónir fyrir vinnslu kalks úr kúfskel, og GMATT ehf. fær sömuleiðis þriggja milljóna styrk fyrir verkefni sem nefnist Þorskvængir, og gengur út á verðmætaaukningu úr vannýttri afurð sem eru kviðuggar á þorski.
Einnig má nefna að Matís leiðir fimm verkefni sem fá samtals nærri 100 milljónir, en hvert þessara verkefna er unnið í samstarfi við ýmis önnur fyrirtæki. Þau snúast meðal annars um greiningu á hringormum í flökum, hákarlsverkun, streitu laxfiska, og verðmæt efni úr aukaafurðum þörungavinnslu.
Kraftur og gróska
Gréta María Grétarsdóttir, formaður stjórnar Matvælasjóðs, kynnti úthlutunina og sagðist vera „mjög ánægð með viðtökurnar sem sjóðurinn fékk og við getum verið bjartsýn hvað framtíð matvælavinnslu á Íslandi varðar þar sem einstök framtakssemi og hugmyndaauðgi einkenndi umsækjendur.“ Hún hvetur alla sem fengu ekki styrk að þessu sinni „til að vinna áfram í sínum hugmyndum enda stutt í næstu úthlutun sem fer fram í vor og stefnum við á að opna fyrir umsóknir í mars.“
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði þessar „öflugu og fjölbreyttu umsóknir“ vera vitnisburð um „þann gríðarlega kraft og grósku sem er í íslenskri matvælaframleiðslu.“