,,Við höfum aldrei fyrr séð þorskinn eins norðarlega í Barentshafinu og núna,” segir Harald Gjösæter fiskifræðingur og leiðangursstjóri á norska rannsóknaskipinu Johan Hjort, en skipið hefur verið í vistfræðirannsóknum í Barentshafi síðan í ágúst ásamt fleiri rannsóknaskipum.

Í leiðangrinum varð vart við þorsk alveg norður á 82. breiddargráðu. Johan Hjort var m.a. við rannsóknir austan við Svalbarða og fann mikið af þorski norðar en venjulega.

Fram kom einnig í þessum rannsóknum að loðnan heldur sig langt norður og austur í Barentshafi. ,,Við fundum loðnu alveg uppi á móts við Franz Jósefs land. Það þarf að fara allt aftur á miðjan áttunda áratug síðustu aldar til þess að finna hliðstæða útbreiðslu  loðnu. Þá var veidd loðna á þessu svæði,” segir Gjösæter í samtali við norska sjávarútvegsvefinn kystogfjord.no.