Útflutningsverðmæti sjávarafurða jókst um 14,1% milli ára á síðasta ári og nam um 251,6 milljörðum króna. Eins og áður er útflutningsverðmæti þorsks langmest eða um 77,2 milljarðar króna. Það er um 31% af heildarútflutningi sjávarafurða á árinu, að því er fram kemur á vef LÍÚ.
Á eftir þorskinum koma uppsjávartegundir eins og makríll og síld. Útflutningsverðmæti makríls nam 24,1 milljarði króna eða svipaðri upphæð og útflutningsverðmæti síldarafurða. Þá nemur útflutningsverðmæti karfa um 19,4 milljörðum króna og útflutningur loðnuafurða nam um 18,4 milljörðum króna. Í næstu sætum voru ýsa og ufsi en útflutningsverðmæti ýsu var 16,1 milljarðar króna og ufsa 12,6 milljarðar króna.
Sjá nánar www.liu.is