Mælingar norsku hafrannsóknastofnunarinnar sýna að selir og hvalir í Barentshafi hafa horast í seinni tíð á sama tíma og þorskstofninn er með allra stærsta móti. Vísindamenn telja að þorskurinn hafi betur í fæðusamkeppninni við sjávarspendýrin.
Með stækkun þorskstofnsins á síðustu árum hefur útbreiðslusvæði hans aukist til norðurs og norðausturs og þar með skarast það meira við kjörsvæði hrefnunnar, einkum á sumrin og haustin. Vöðuselurinn heldur sig á hinn bóginn mikið í námunda við rekís í fæðuöflun. Þótt þorskur, hrefna og selur séu ekki að öllu leyti á sama svæðinu leita þau í sömu fæðustofnana, aðallega ljósátu, loðnu og ískóð.
Þorskurinn hefur það hins vegar fram yfir sjávarspendýrin að hann getur kafað dýpra eftir fæðu, en fæðunám sels og hrefnu takmarkast við 100 metra frá yfirborði.
Í grein á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar er rifjað upp að á níunda áratugnum þegar loðnustofninn í Barentshafi hrundi hafi hrefnan verið mjög magur og um svipað leyti sótti vöðuselurinn að norsku ströndinni í miklum mæli. Varpað er fram þeirri spurningu hvort búast megi við nýrri selainnrás nú þegar loðnustofninn er í lágmarki.