Bræðurnir eiga ekki langt að sækja sjómennskugenið. Faðir þeirra var Grindvíkingurinn góðkunni, Dagbjartur Einarsson, skipstjóri, útgerðarmaður og forstjóri Fiskaness á sinni tíð. Dagbjartur lést í október 2017.
5 mínútur úr höfn á miðin
„Ég er hálf lemstraður eftir þetta. Þegar maður hefur ekki farið á sjó í nokkra mánuði og fær svo 1,7-1,8 tonn þá finna fuglabeinin fyrir því. Maður er ekki meiri bógur en það,“ sagði Jón Gauti. Hann var þá í landi en Einar kominn á sjó.

„Ég byrjaði á því að fara með tvo vini með mér. Þetta er stutt færi hérna í Nesinu, bara 5 mínútur úr höfn á miðin. Klukkan 11 skutlaði ég öðrum þeirra í land sem var orðinn sjóveikur. Þá vorum við tveir eftir en svo þurfti ég að skutla hinum í land líka því hann var að fara í afmæli. En fiskiríið var orðið svo gott að ég fór bara út aftur.“
Í Grindjána GK eru fjórar rúllur. Þær voru allar í gangi og fiskur á hverjum krók. Þetta var fyrsti dagur eftir hrygningarstopp. „Við máttum byrja klukkan tíu. Hafró hefur komist að því að þorskurinn hættir alltaf að hrygna klukkan tíu á morgnana.“
8 kíló plús
Átján hundruð kíló er gott dagsverk sérstaklega þegar dagurinn telur bara 6 tíma á veiðum. Fiskurinn var vænn og fallegur og sprautuðust svilin úr sumum. „Þetta var flottur vertíðarfiskur. Þetta voru 4-5 hundruð kíló af 8 kíló fiski plús, góð 500 kíló af 5 kíló plús og 4-500 kíló blandaður stór fiskur. Svo fékk ég 200 kíló af stórufsa. Það er vaðandi síld hérna og alveg austur að Krísuvíkurbergi. Fiskurinn er í bullandi æti.“
Fyrir þjóðina ehf.
Grindjáni GK var áður einnig í eigu Eiríks sem var útgerðarstjóri Þorbjörns áður en fyrir tækinu var skipt upp. Eiríkur er bróðir þeirra Einars og Jóns Gauta. Leiðir skildu og Eiríkur keypti sér annan bát, Ólaf GK 133, en hélt nafninu Grindjáni fyrir útgerðina sína. Jón Gauti og Einar héldu Grindjána GK og stofnuðu útgerðarfélagið Fyrir þjóðina ehf. „Enda erum við að þessu fyrir þjóðina,“ segir Jón Gauti og slær á létta strengi.

Hann segir að það hafi verið dúndurgott fiskverð á markaðnum. Nú eru þeir bræður farnir að búa sig undir strandveiðar enda styttist í að þær hefjist. Seinnipart sumars og næsta haust leggi þeir sig eftir ufsanum. „Þetta er skrítið áhugamál en afar skemmtilegt. Í raun algjör forréttindi að geta slökkt á öllu og hlustað eingöngu á rúllurnar og múkkann. Og þegar maður er einn getur maður hagað sér eins og fábjáni, það er enginn til þess að hneykslast á manni. Múkkinn kjaftar aldrei frá.“