Veruleg breyting hefur orðið á stærðarsamsetningu þorskstofnsins á liðnum árum. Með strangari aðhaldsaðgerðum í fiskveiðistjórnun hefur hlutfall stórþorsks í stofninum snaraukist og landaður þorskur er mun þyngri að meðaltali en áður var.

Sigurður Viggósson framkvæmdastjóri útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Odda hf. á Patreksfirði segir í viðtali í nýjustu Fiskifréttum að það sé orðið vandamál markaðslega hversu stór þorskurinn sé orðinn.

„Við getum ekki búið til jafnmikil verðmæti úr þessum stóra fiski eins og úr millistórum fiski. Áður fyrr fór mikið af stórfiskinum í flatningu og salt, en saltfiskmarkaðirnir í Suður-Evrópu eru í lægð og borga lítið fyrir vöruna, þannig að stóri fiskurinn er orðinn raunverulegt vandamál,“ segir Sigurður.

Sigurður hefur miklar efasemdir um að núverandi nýtingarstefna skili hámarksarðsemi af þorskstofninum. „Það segir sig sjálft að það er ekki hagkvæmt að láta stærsta og elsta fiskinn drepast úr elli vegna þess að sjómenn forðast að veiða hann.“

Sjá nánar í Fiskifréttum.