Sissel Rogne, forstjóri norsku hafrannsóknastofnunarinnar, Havforskningsinstituttet, greindi frá því í ársræðu sinni á þriðjudag að stofnunin hafi tekið saman lista yfir þær 37 fisktegundir sem mikilvægastar teljast í norskum sjávarútvegi og lagt mat á það hvernig þeim muni reiða af í breyttu loftslagi.
„Niðurstöðurnar sýna að 70 prósent tegundanna eru jákvæðu megin á skalanum. Þær munu þola hlýrri sjó.“
Barentshafsþorskurinn, sem Norðmenn kalla skrei, og ýsan muni spjara sig best, og spennandi verði að fylgjast með lýsingnum sem muni færa sig norður á bóginn.
„Greiningin sýnir líka að makríll, síld og kolmunni muni spjara sig vel fram til ársins 2050.“
Þessar tegundir hafi góða aðlögunarhæfni og séu vanar miklum breytileika í bæði búsetusvæðum og fæðumöguleikum.
Hins vegar muni norski strand- og innfjarðaþorskurinn eiga erfitt uppdráttar, enda eigi hann erfiðara með að flytja sig til þegar ástandið á heimaslóðum hans breytist.
Hún tekur fram að þorskur sé ekki bara þorskur. Í Noregi gera menn greinarmun á strandþorski og innfjarðarþorski, Norðursjávarþorski og Barentshafsþorski.
Ískóðið sé síðan sú tegund sem einna verst verður úti af þeim tegundum sem Norðmenn nýta, enda sé það háð hafísnum sem búast megi við að hörfi.
„Barentshafið hlýnar hraðar en nokkur annar staður á jörðinni og hraðar en loftslagsnefnd SÞ hefur áætlað,“ sagði hún.