Það virðist vera auðvelt að skilja að þorsk og ýsu í dragnót með því að koma fyrir láréttu millineti aftarlega í nótinni, því þorskur á flótta hefur tilhneigingu til þess að leita niður á við en ýsan upp. Þetta sýna niðurstöður úr norskri rannsókn sem fór fram í Barentshafi nú í haust.

Í tilrauninni kom fram að 85-90% af þorskinum leituðu undir lárétta millinetið í dragnótinni en 70-80% ýsunnar syntu upp fyrir netið.

Þessar tilraunir minna á hliðstæðar tilraunir sem Hafrannsóknastofnun hefur gert á botnvörpuveiðum við Ísland en þær gáfu einnig þá niðurstöðu að megnið af ýsunni leitaði upp í trollinu en þorskurinn að mestu leyti niður.

Gagnsemi svona búnaðar í blönduðum veiðum er að sjálfsögðu sú að geta forðast að veiða aðra hvora tegundina þegar kvótastaðan er óhagstæð í viðkomandi tegund. Þá má hleypa út þorskinum eða ýsunni með því að hafa opinn þann hluta pokans sem við á.

Sjá MYNDBAND úr norsku rannsókninni á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.