Á myndbandi sem tekið var um borð í Hrafni Sveinbjarnarsyni GK 255 þegar skipið var að veiðum norðan við Grímsey í september bar það til tíðinda að allur stórþorskur sem veiddist var fullur af þorski sem ekki var þó af minnstu gerð. Annað æti var ekki á svæðinu.

Hilmar Helgason, skipstjóri á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK 255, segir gríðarlega þorskgegnd allt í kringum landið. Hann segist aldrei hafa upplifað annað eins á síðustu fimm árum á öllum sínum ferli til sjós sem spannar yfir hálfa öld.

Hilmar, eins og fleiri, er þeirrar skoðunar að stofninn sé afar stór og það geti jafnvel valdið fæðuskorti.

Myndbandið sem hér er vísað í var tekið um borð í Hrafni Sveinbjarnarsyni norðan Grímseyjar í september og sýnir þegar sonur Hilmars, Helgi Jökull, bátsmaður á Hrafni Sveinbjarnarsyni, opnar þorska og við blasa stálpaðir þorskar í maga þeirra. En sjón er sögu ríkari.