Þorsksala í verslunum stórmarkaðskeðjunnar Waitrose í Bretlandi jókst nýlega um 800% eftir að Heston Blumenthal, þekktur og margverðlaunaður matreiðslumaður og veitingahússeigandi þar í landi, mælti með þorski úr sjálfbærum veiðum við viðskiptavini verslananna en sá þorskur er sagður koma aðallega frá Íslandi og Noregi.

Þetta kom fram á ráðstefnu, sem norskir útflytjendur sjávarafurða efndu til í Grimsby í þessari viku, í erindi fulltrúa frá Sealord sem er stærsti birgir Waitrose-keðjunnar.

Mikil umræða hefur verið í Bretlandi í seinni tíð um ósjálfbærar fiskveiðar. Sérstaka athygli vakti þáttur sjónvarpskokksins Hugh Fearnley-Wittingstall þar sem ráðist var gegn brottkasti á fiski og illri umgengni um fiskistofna. Tveir aðrir sjónvarpsþættir sama manns verða sýndir í sumar og þar verður leitast við að gefa jákvæðari mynd af fiskveiðum, sérstaklega af íslenskum og norskum þorski sem veiddir eru á sjálfbæran og ábyrgan hátt, að því er fram kemur í frétt á sjávarútvegsvefnum Fishupdate.com.