Þorskaflamark samkvæmt aflareglu verður 196.000 tonn á næsta fiskveiðiári samanborið við 177.000 tonn á yfirstandandi ári, að því er Hafrannsóknastofnun upplýsti á blaðamannafundi nú fyrir stundu. Aukningin er 19.000 tonn eða 11%. Gera má ráð fyrir að stjórnvöld ákveði kvótann í samræmi við aflaregluna eins og venja hefur verið síðustu árin.

Fram kom í máli Jóhanns Sigurjónssonar forstjóra stofnunarinnar að líkur væru á að þorskstofninn og þorskaflinn færi vaxandi á komandi árum og gæti kvótinn orðið 250 þúsund tonn árið 2016.