Þorskkvótinn í Barentshafi er nú stærri en hann hefur verið í marga áratugi. Þar af leiðandi hefur Alþjóðahafrannsóknaráðið lagt til 940.000 tonna þorskveiði á komandi ári. Þetta er kvótaaukning um 189.000 tonn sem er meira en allur þorskkvóti Íslendinga í ár. Á yfirstandandi ári er þorskkvótinn í Barentshafi 751.000 tonn.
Það þarf að fara aftur til ársins 1974 til þess að finna meiri þorskveiði í Barentshafi en leyft verður að veiða á næsta ári, að því er fram kemur í frétt á vef norsku hafrannsóknarstofnunarinnar. Bæði í ár og í fyrra hefur mælst mikið af 7 og 8 ára fiski. Vísindamenn telja að 3,5 milljónir tonna af þorski séu nú í Barentshafi.
Af 940.000 tonna kvóta á næsta ári munu um 400.000 tonn koma í hlut Norðmanna.