Rússar og Norðmenn hafa komið sér saman um að veiða 775 þúsund tonn af þorski úr Barentshafi á næsta ári. Þetta er 115 þúsund tonnum minna en þeir veiddu á síðasta ári, en 63 þúsund tonnum meira en Alþjóðahafrannsóknarráðið ICES mælti með.
Í staðinn fyrir að minnka kvótann um 20 prósent frá síðasta ári, eins og ICES mælti með, hafa ríkin tvö ákveðið að minnka kvótann um 13 prósent.
Kvótinn skiptist á milli Norðmanna, Rússa og þriðju landa samkvæmt sömu reglum og gilt hafa undanfarin ár. Hlutur Norðmanna verður 350.159 tonn, og innifalið í því eru strandveiðar á 21.000 tonnum af þorski og rannsóknarveiðar á 7 þúsund tonnum.
Ríkin tvö hafa einnig samið um kvóta fyrir veiðar annarra fisktegunda og var samkomulag þess efnis undirritað 12. október í borginni Kazan í Rússlandi, samkvæmt tilkynningu norskra stjórnvalda.
Ýsukvótinn verður 202.305 tonn, loðnukvótinn 205 þúsund tonn og lúðukvótinn 27 þúsund tonn.
Norðmenn og Rússar allt frá árinu 1976 sett sameiginlegan kvóta á veiðar í Barentshafi. Frá árinu 1993 hafa ríkin tvö haft nána samvinnu um rannsóknir og eftirlit ásamt því að skiptast á upplýsingum um veiðarnar.