Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2015/2016. Að þessu sinni er úthlutað 368.500 tonnum í þorskígildum talið samanborið við um 367.060 þorskígildistonnum á sama tíma í fyrra, reiknað í þorskígildum fiskveiðiársins sem nú gengur í garð .

Úthlutun í þorski er rúmlega 190 þúsund tonn og hækkar um 18.300 tonn frá fyrra ári. Ýsukvótinn hækkar um tæp 5 þúsund tonn og fer í 28.950 tonn. Nokkur aukning milli ára er í úthlutun í flestum kvótategundum, einna helst er nokkur samdráttur í fáeinum flatfisktegundum. Úthlutað aflamark er alls 435.650 tonn sem er um 3.500 tonnum meira en á fyrra ári enda þótt síldarúthlutun nú sé um 17 þúsund tonnum minni en í fyrra.

Vakin er athygli á að síðar á árinu verður úthlutað aflamarki í deilistofnum og ekki er óalgengt að aukið sé við aflamark í uppsjávarfiski. Þess vegna á heildaraflamark einstakra skipa og hafna og innbyrðis hlutfall þeirra eftir að breytast í kjölfar slíkra úthlutana þegar líður á fiskveiðiárið.

Alls fá 534 skip úthlutað aflamarki í upphafi fiskveiðiárs 2015/2016 samanborið við 578 á fyrra fiskveiðiári. Það skip sem fær úthlutað mestu aflamarki er Kaldbakur EA 1, en hann fær 8.111 þorskígildistonn eða 2,2% af úthlutuðum þorskígildum.

Sjá nánar á vef Fiskistofu.