Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunin (NAFO) hefur ákveðið að þorskkvóti á Flæmingjagrunni utan lögsögu Kanada verði 14.133 tonn á næsta ári sem er 50% aukning milli ára.

Þorskveiðar á þessu svæði voru bannaðar árum saman í kjölfar hruns þorskstofnsins á þessum slóðum en síðustu þrjú árin hafa takmarkaðar veiðar verið leyfðar í ljósi þess að stofninn úti fyrir ströndum Nýfundnalands sé að hjarna við lítilsháttar.

Nokkrar þjóðir hafa yfir að ráða þorskveiðiheimildum á þessu svæði, þeirra á meðal Norðmenn sem eiga rúmlega 9% hlut í þessum kvóta og fá 1.300 tonn á næsta ári. Það nægir fyrir tvo togaratúra.

Flæmingjagrunn er þekktast sem rækjuveiðisvæði, en rækjuaflinn þar hefur verið lítill á undanförnum árum og eru bollaleggingar um að aukinn þorskgengd kunni að eiga einhvern þátt í því.