Sterkur orðrómur er um það í sjávarútvegi í Noregi að bátar í strandveiðiflotanum hafi veitt 70.000 tonnum meira í ár en kvótar þeirra leyfa, að því er fram kemur í dag í Fiskeribladet/Fiskaren sem er helsta sjávarútvegsblað Noregs.

Þessi tala, 70.000 tonn, er sögð eiga uppruna sinn á skrifstofu norsku fiskistofunnar í Finnmörku. Norski fiskistofustjórinn, Liv Holmefjord, kveðst hafa kannað málið og fengið þau svör að þetta væri ekki rétt.

Hún segir hins vegar fulla ástæðu til að ætla að umtalsverðu magni af þorski hafi verið landað framhjá vigt og skráningu í ár þótt hún hafi ekki trú á að það hafi verið nærri eins mikið og orðrómurinn sé um.

Forstöðumaður norsku fiskistofunnar í Finnmörku telur að misskilningurinn um 70.000 tonnin kunni að stafa af því að skrifstofan hafi fengið upphringingar frá sjómönnum sem fullyrt hafi að allt að 30% aflans hafi verið landað á ólöglegan hátt.

Strandveiðiflotinn norski hefur það sem af er árinu veitt liðlega 202.000 tonn af kvóta sínum sem er 234.000 tonn.