Gert er ráð fyrir að afli þorsks úr Atlantshafi minnki á næsta ári um 100 þúsund tonn, fari úr 1.330 þús. tonnum í 1.230 þús. tonn. Ástæðan er kvótasamdráttur Norðmanna og Rússa milli ára en áætlað er að veiðar við Ísland standi nokkurn veginn í stað.

Því er spáð að veiði á kyrrahafsþorski dragist örlítið saman eða úr 487 þús. tonnum í 482 þús. tonn. Ýsuafli í heiminum mun halda áfram að minnka eða úr 286 þús. tonnum í 278 þús. tonn á því næsta.

Þetta kom m.a. fram á nýafstöðnum árlegum fundi Groundfish Forum, þar sem saman komu forustumenn helstu fisksölufyrirtækja í heiminum. Þar var upplýst að gert væri ráð fyrir að framboð á hvítfiski í heiminum á árinu 2015 yrði í heild stöðugt eða 7.078 þúsund tonn samanborið við 7.092 þúsund tonn á yfirstandandi ári.

Alaskaufsi er stærsta hvítfisktegundin á markaði og er gert ráð fyrir að framboð af honum verði 3.385 þúsund tonn á næsta ári sem er um 30 þús. tonnum meira en í ár. Af heildinni munu Bandaríkjamenn og Kanadamenn veiða 1.480 þús. tonn samanlagt en Rússar 1.620 þúsund tonn. Japanir veiða svo 230 þús. tonn af þessari fisktegund.

Af öðrum tegundum má nefna að því er spáð að heildarframboð af lýsingi (hake) muni halda áfram að minnka, fari úr 990 þús. tonnum á þessu ári í 926 þús. tonn á því næsta. Hins vegar er gert ráð fyrir heldur meiri ufsaafla og því spáð að hann verði 293 þús. tonn.

Frá þessu er skýrt á vefnum FISHupdate.com