Framboð á þorski úr Atlantshafi verður 42% meira í ár en það var fyrir þremur árum. Gert er ráð fyrir að 1,1 milljón tonna af þorski veiðist á þessu ári og hefur aflinn ekki orðið meira á þessari öld. Aukningin er yfir 300 þúsund tonn frá árinu 2008, fyrst og fremst vegna kvótaaukningar í Barentshafi.
Það á eftir að koma í ljós hvaða áhrif þetta aukna framboð hefur á markaðinn. Hliðstæð þróun hefur orðið í ýsuveiði í Atlantshafi, hún hefur aukist um 38% á þessum tíma.
Hins vegar hefur orðið samdráttur í innflutningi til Evrópu á þorskafurðum unnum í Kína á síðustu tveimur árum.
Þetta kom fram í erindi Helga Antons Eiríkssonar forstjóra Iceland Seafood International á markaðsdegi fyrirtækisins fyrir skemmstu.
Greint er nánar frá málinu í Fiskifréttum sem komu út í dag.