Þorskeldismenn á norðurslóðum báru saman bækur sínar á þorskeldisráðstefnu sem haldin var hér á landi fyrir skömmu. Miklar sveiflur hafa verið í þorskeldi og þróun þessarar greinar hefur gengið hægar en menn áttu von á. Mikill samdráttur er í framleiðslu í Noregi.
Þetta er í þriðja sinn sem norræna þorskeldisráðstefnan er haldin hér á landi en þorskeldismenn hittast á þessum vettvangi á þriggja ára fresti. ,,Það er kannski tímanna tákn að Norðmenn létu varla sjá sig að þessu sinni. Þeir hafa farið of geyst af stað og segja má að þorskeldi hafi nánast hrunið hjá þeim vegna erfiðleika í rekstri og framleiðslu,“ segir Valdimar Gunnarsson, sjávarútvegsfræðingur og skipuleggjandi ráðstefnunnar, í samtali við Fiskifréttir.
Þegar best lét í norsku þorskeldi voru rúmlega 20 milljónir seiða sett út í sjókvíar en á síðasta ári var fjöldi þeirra kominn undir 5 milljónir. Í ár er áætlað að um 5 milljónir seiða verði settar út í kvíar. Slátrunin fór mest í 20 þúsund tonn árið 2010 en fer niður í 15 þúsund tonn í ár og lækkar enn meir á næstu árum. Rekstrartap og gjaldþrot í norsku þorskeldi nema mörgum milljörðum króna. ,,Þrátt fyrir þetta eru Norðmenn ennþá að setja út of mörg seiði og mun meira en þarf til að stunda kynbætur. Ég skil ekki hvers vegna það er gert því fyrirfram er vitað að þeir tapa miklum peningum á eldinu. Það á eftir að finna lausn á fjölmörgum vandamálum áður en eldið er skalað upp,“ segir Valdimar.
Allt að 100 fyrirtæki stunduðu þorskeldi í Noregi þegar þau voru flest en þau eru nú komin niður í rétt rúman tug.