Stór áform voru uppi um þorskeldi hér við land fyrir nokkrum árum enda aðstæður taldar góðar. Þegar mest var nam slátrun á eldisþorski um 1.500 tonnum á ári og var búist við vexti en í ár er áætlað að slátrað verði um 600 tonnum, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Þorskeldi hér við land er tvíþætt. Annars vegar er aleldi, sem hefur að mestu lagst niður, og hins vegar áframeldi sem dregist hefur verulega saman. Enginn matfiskur er framleiddur í aleldi og er þorskeldið enn á rannsókna- og þróunarstigi. Áfram er unnið að kynbótum sem miða að því að auka vaxtarhraða. Árlega eru til ráðstöfunar um 500 tonn af þorski sem veidd eru til áframeldis. Erfiðlega hefur gengið að veiða þessar heimildir þar sem smáþorskur hefur gengið minna inn á landgrunnið en áður. Loks hefur verðlækkun á þorski dregið úr áhuga eldismanna. Engin áform eru uppi um að auka þorskeldi í næstu framtíð hjá Hraðfrystihúsinu-Gunnvöru sem er stærsta þorskeldisfyrirtæki landsins.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.