Væntingar um þorskeldi á Nýfundnalandi og Labrador hafa ekki gengið eftir og eingöngu fáar þorskeldistöðvar enn starfandi.

Þeir fáu ræktendur sem eftir eru segja þorskeldið mjög erfitt og litlar líkur á að því verði haldið áfram. Miklar vonir voru bundnar við eldi í kjölfar þorskveiðibannsins við Nýfundnaland fyrir rúmum tuttugu árum og miklir peningar lagðir í það. Hundruð milljóna króna voru lagðar í tilraunir og tilraunaeldi sem átti að einhverju leyti  að koma í staðinn fyrir veiðarnar.

Áhugi á þorskeldinu hefur dvínað hratt undanfarið vegna þess hversu illa það hefur gengið og því erfitt að fá fé til áframhaldandi uppbyggingar. Aukið framboð á villtum þorski hefur einnig leitt til lækkunar á verði eldisþorsks og gert markaðssetningu hans erfiðari.

Tilraunir og reynsla á þessum slóðum sýna að þorskeldi er erfiðara en menn áttu von á. Þorskurinn vex hægt og er gjarn á að naga gat á netin í eldiskvíunum og sleppa. Einnig hefur reynst erfitt að þróa fóður sem hentar honum, að því er fram kemur í frétt á vefnum seafoodsource.com.