Beitir NK, Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK hafa að undanförnu verið að kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni. Beitir hélt fyrst til veiðanna og var á landleið í gær með nánast fullfermi eða rúmlega 2000 tonn, að því er fram kemur á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Börkur var einnig á landleið í gær með 1400 tonn og Bjarni Ólafsson með 1300 tonn. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti sagði í samtali við heimasíðu SVN að það væri töluvert þolinmæðisverk að fá í skipið. „Við fengum þennan afla í átta holum en það er eitt hol á dag. Við drógum gjarnan í kringum 18 tíma. Aflinn var misjafn; besta holið gaf 450 tonn en það lakasta var undir 200 tonnum. Við vorum gjarnan að fá um 10 tonn á tímann en svo hittum við stundum á góða bletti sem gáfu meira.“

Börkur og Bjarni Ólafsson hófu veiðar nokkru á eftir Beiti og hefur árangurinn hjá þeim verið svipaður. Nú spáir leiðindaveðri á veiðislóðinni, segir ennfremur á vef SVN.