Venusi NS kom til Vopnafjarðar í gær með um 2.750 tonn af kolmunna. Aflinn fékkst á um vikutíma fyrir sunnan Færeyjar en erfitt tíðarfar með tilheyrandi brælum hefur gert skipunum erfitt með að stunda veiðar.
,,Við fengum ágætan afla fyrstu tvo dagana á miðunum en síðan brældi hressilega. Sólarhringinn eftir að brælan gekk niður var aflinn sömuleiðis viðunandi en þá brældi að nýju. Við færðum okkur austar á meðan veðrið var hvað verst en þar var mun minni afli. Við erum því komnir aftur á svipaðar slóðir eða beint suður af Færeyjum,“ sagði Guðlaugur Jónsson skipstjóri er vefur HB Granda ræddi við hann sl. miðvikudag. Aflinn var þá kominn í um 1.600 tonn.
Ágætur afli fékkst svo á föstudag og aðfararnótt laugardags var síðasta holið klárað. Í því voru rúmlega 400 tonn af kolmunna eftir 12 tíma tog.