,,Það er þokkalegt útlit. Flest skipin köstuðu í nótt eftir brælu sem stóð í tæpan sólarhring. Veiðin hefur verið upp og ofan. Aðalgangan er farin suður um en við erum í eftirhreytunum. Árangurinn er misjafn en yfirleitt þokkalegur,“ sagði Sigurður Ólafsson stýrimaður á Álsey VE þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans nú í morgun.
Nær allur íslenski loðnuflotinn er enn að veiðum með trolli úti fyrir Austfjörðum, nánar til tekið djúpt austur af Bakkaflóa. Skipin mega ekki veiða með trolli fyrir sunnan línu sem dregin er austur úr Dalatanga.
,,Það hefur verið mun skarpari veiði í troll en í nót núna í janúar og þess vegna höfum við haldið okkur við trollið og ekki elt aðalgönguna suður á bóginn. Loðnan hefur staðið djúpt og erfitt hefur verið við hana að eiga. Þar að auki erum við miklu betur settir með trollið ef eitthvað er að veðri. Við bíðum bara eftir því að loðnan skili sér upp á grunnin. Það gerist vonandi núna á næstu viku til tíu dögum,“ sagði Sigurður.
Samkvæmt tölum Fiskistofu hafa íslensk skip veitt 139 þús. tonn frá upphafi loðnuvertíðarinnar og eiga því 410 þús. tonna kvóta eftir.
Stór hópur norskra loðnuskipa er nú að veiðum sunnar við Austfirði en þau mega aðeins veiða í nót. Þar er einnig nótaskipið Sigurður VE og hin grænlenska Erika sem er að hluta til í íslenskri eigu. Samkvæmt upplýsingum á vef norska síldarsamlagsins hefur norski flotinn nú tilkynnt um samtals 22 þúsund tonna loðnuafla við Ísland frá upphafi vertíðarinnar.