„Við teljum að það verði ekki vandamál að selja makríl en spurningin lítur þá aðeins að verðinu. Það virðist sem markaðir séu tiltölulega tómir en það er líka mikið framboð frá öllum veiðiþjóðum,“ segir Teitur Gylfason sölustjóri hjá Iceland Seafood um markaðshorfur fyrir makríl á vertíðinni sem er að hefjast.
„Við treystum okkur ennþá til þess að spá fyrir um verðþróun. Útlit er fyrir eitthvað meiri veiðar en í fyrra en þó ekki mikil aukning. En framboðið er bara mikið ár frá ári.“
Verð á makrílafurðum hér á landi lækkaði um u.þ.b. 30% árið 2016 frá árinu á undan. Ástæðurnar voru aukið framboð inn á markaðinn eftir að Rússland lokaði fyrir innflutning. Teitur segir eftirspurnina ágæta núna og ljóst er að framboðið verður líka mikið. Hann vill því fara varlega í það að spá um verð en þykist þó nokkuð viss um að verð lækki ekki í erlendri mynt frá fyrra ári. Gengið komi hins vegar til með að vinna á móti útflutningnum.
Teitur segir að makríll sé fiskur sem hægt sé að selja nánast út um allan heim. Iceland Seafood hefur verið að selja til að mynda til landa í Norður-Afríku og Asíu. Rússar tóku hins vegar mjög mikið magn og héldu uppi verðinu á íslenskum makríl. Makrílkvóti Íslendinga á þessu ári er rúm 168 þúsund tonn.