„Við erum klikkaðir,“ viðurkennir Böðvar Eggertsson fúslega þegar blaðamaður hitti hann um borð dráttarbátnum Magna nýverið, gamla bátnum sem smíðaður var árið 1954 en hefur ekki verið í notkun síðan 1987.

Frá árinu 2017 hefur hópur manna unnið að því að gera bátinn upp. Verkið hefur mjakast, en Böðvar segir enga leið að vita hvenær því geti talist lokið.

„Við erum alltaf að vinna og vonandi eru hænuskrefin áfram. En þetta er ótímasett,“ segir Böðvar.

Hópurinn hittist að lágmarki einu sinni í viku, á hverju fimmtudagskvöldi milli kl. 20:00 og 22:00. Stundum mætir bara einn, oftast fleiri og stöku sinnum hátt í tíu manns. Verkefnin eru óþrjótandi enda báturinn illa farinn eftir nokkurra áratuga notkunarleysi.

Böðvar Eggertsson við nýju vélina sem enn á eftir að hnika aðeins til svo hún komist á réttan stað í vélarrúminu. FF MYND/Eyþór
Böðvar Eggertsson við nýju vélina sem enn á eftir að hnika aðeins til svo hún komist á réttan stað í vélarrúminu. FF MYND/Eyþór

Vikulegar vinnutarnir

Þeir voru fjórir í bátnum þegar blaðamaður Fiskifrétta hitti þá eitt fimmtudagskvöldið fyrir stuttu. Eftir að hafa sest niður stundarkorn að spjalla var tekið til óspilltra málanna og unnið að því fram eftir kvöldi að þoka verkinu áfram.

Fleiri hundruð klukkustundir liggja að baki enda hefur þurft að taka upp nánast hverja einustu fjöl í skipinu og púsla saman aftur, endurnýja gólfefni, skipta um einangrun, lakka og mála. Í vetur þurfti að þétta með gluggum og víðar þar sem slagviðrið hafði brotið sér leið í gegn. Næsta verkefni er að mála skipið að utan, nú þegar vora tekur.

Stór áfangi náðist stuttu fyrir jól nú í vetur þegar ný aðalvél var hífð um borð í Magna. Hún var keypt til landsins í desember 2019 og er engin smásmíði frekar en sú sem fyrir var. Leita þurfti víða áður en nothæf vél fannst, enda slíkir gripir ekki á hverju strái lengur.

Ýmsar forvitnlegar minjar frá fyrri tíð leynast enn um borð í Magna. FF MYND/Eyþór
Ýmsar forvitnlegar minjar frá fyrri tíð leynast enn um borð í Magna. FF MYND/Eyþór

Verður til sýnis

Þegar ástandið á Magna verður komið í betra horf verður hann hafður til sýnis ásamt varðskipinu Óðni við safnabryggjuna í Vesturbugt, sem nú hefur verið endurbyggð og tengd betur Sjóminjasafninu.

„Þar á hann heima,“ sagði Böðvar.

„Fyrst og fremst verður þetta safn, og minnismerki um að fyrsta stálbát Íslendinga. Það er heila ástæðan fyrir því að ég gef mig í þetta.“

Eitt fyrsta verkið var reyndar að taka bátinn í slipp og skoða ástandið. Í ljós kom að skrokkur bátsins var ekki jafn illa farinn og óttast var, þótt yfirbyggingin og innvolsið sé mikið til illa farið.

„Skrokkurinn sjálfur er í fínu standi. Það er það sem varð til þess að fórum af stað,“ segir Böðvar.

Nýja aðalvéNýja aðalvélin er smíðuð 1968, sömu gerðar og sú gamla sem var árgerð 1954. Hún var fengin úr gömlu fraktskipi og fannst eftir mikla leit. Töluvert verk var að koma henni um borð í skipið og mikil vinna enn eftir áður en hún fer í gang.lin
Nýja aðalvéNýja aðalvélin er smíðuð 1968, sömu gerðar og sú gamla sem var árgerð 1954. Hún var fengin úr gömlu fraktskipi og fannst eftir mikla leit. Töluvert verk var að koma henni um borð í skipið og mikil vinna enn eftir áður en hún fer í gang.lin

Annar af sex

Magni er fyrsta stálskipið sem smíðað er á Íslandi en annar dráttarbáturinn með því nafni. Fyrsti dráttarbátur Reykjavíkurhafnar kom til landsins árið 1928 og fékk nafnið Magni. Aldarfjórðungi síðar var komið að því að svipast um eftir nýjum dráttarbát, og var ákveðið að smíða hér á landi stálbát sem einnig fékk nafnið Magnið. Sú hefð hefur síðan haldist að nefna öflugustu dráttarbáta hafnarinnar Magna. Sá nýjasti kom til Reykjavíkur 27. febrúar 2020, en hann er sá sjötti í röðinni og sá öflugasti og fullkomnasti til þessa.

Feðgar

Bárður G. Tómasson var fyrsti íslenski skipaverkfræðingurinn, fæddur 1885 og lauk skipaverkfræðiprófi 1914.

„Þegar hann kom heim til Íslands frá námi 1916 var íslenskur iðnaður ekki í stakk búinn til að hefja smíði stálskipa, en það hafði verið óskadraumur hans við heimkomuna að svo gæti orðið,“ segir í bók sonar hans, Hjálmars.

Það var sonurinn, skipaverkfræðingurinn og ljósmyndarinn Hjálmar R. Bárðarson, sem tók við verkefninu og lét smíði fyrsta stálskipsins á Íslandi verða að veruleika árið 1954. Bárður var orðinn 69 ára þegar hann sá þennan draum sinn rætast.

Magni smíðum hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík. MYND/Hjálmar R. Bárðarson, birt með leyfi rétthafa.
Magni smíðum hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík. MYND/Hjálmar R. Bárðarson, birt með leyfi rétthafa.

Brot úr bók Hjálmars R. Bárðarsonar:

Hjálmar R. Bárðarson, skipaverkfræðingur og ljósmyndari, sagði ítarlega frá byggingarsögu Magna í máli og myndum í bók sinni Fyrsta stálskip smíðað á Íslandi, sem hann gaf út árið 1993. Hér að neðan eru nokkur brot úr þeirri bók, birt með leyfi frá rétthöfum.

Teikning Hjálmars R. Bárðarsonar skipaverkfræðings af dráttarbátnum Magna. MYND/Hjálmar R. Bárðarson, birt með leyfi rétthafa.
Teikning Hjálmars R. Bárðarsonar skipaverkfræðings af dráttarbátnum Magna. MYND/Hjálmar R. Bárðarson, birt með leyfi rétthafa.

Margir voru vantrúaðir

„Það var merkur dagur í íslenskri iðnsögu, 28.apríl 1953, þegar samningur var undirritaður um smíði fyrsta stálskips á Íslandi. Þá voru liðin fimm ár og nærri fjórir mánuðir frá 8. janúar 1948, þegar ég kom heim frá námi í skipaverkfræði og störfum erlendis, og gerði mér þá vonir um að innan skamms yrði hægt að hefja smíði stálskipa við Stálsmiðjuna í Reykjavík. Mér varð þó fljótlega ljóst, að það tæki nokkurn tíma að búa smiðjuna þeim tækjum og búnaði, sem til þess þyrfti að geta smíðað stálskip. En það tók ekki síður langan tíma að sannfæra heimamenn um að hægt væri að smíða stálskip á Íslandi.

Ég mun alltaf minnast þess, sem einn ágætur plötusmiður af gamla skólanum" og dyggur starfsmaður Stálsmiðjunnar sagði við mig, þegar ég nýkominn til starfa nefndi það, að nú væri kominn tími til að hefja hér smíði stálskipa. Hann sagði eitthvað á þessa leið: „Ha, að smíða stálskip á Íslandi, nei það er sko ekki hægt að smíða hér stálskip." Og hann var alls ekki einn þessarar skoðunar.

Margir voru vantrúaðir á að það gæti tekist. Þegar dráttarbáturinn rann í sjóinn af nýsmíðabrautinni stóð þessi sami maður hjá mér og horfði á. Það gladdi mig þegar hann þá sagði við mig: „Þetta sagði ég alltaf, að það væri hægt að smíða stálskip á Íslandi." Hann hafði fylgst með þróuninni og sjálfur tekið svo dyggilega þátt í henni, að nú hafði hann algerlega gleymt því að hann hefði verið á annarri skoðun áður en hann kynntist verkefninu.“

Upphaflega aðalvélin var af gerðinni Deutz, 1000 hestöfl og rúm 22 tonn að þyngt. Vegna takmarkaðrar lyftigetu við höfnina þurfti að fá bandarískt flutningaskip til að lyfta vélinni í land úr íslenska flutningaskipinu sem kom með hana frá Þýskalandi. Síðar var lyftibóma í Tröllafossi notuð til að lyfta vélinni um borð. MYND/Hjálmar R. Bárðarson, birt með leyfi rétthafa.
Upphaflega aðalvélin var af gerðinni Deutz, 1000 hestöfl og rúm 22 tonn að þyngt. Vegna takmarkaðrar lyftigetu við höfnina þurfti að fá bandarískt flutningaskip til að lyfta vélinni í land úr íslenska flutningaskipinu sem kom með hana frá Þýskalandi. Síðar var lyftibóma í Tröllafossi notuð til að lyfta vélinni um borð. MYND/Hjálmar R. Bárðarson, birt með leyfi rétthafa.

Aðalvélin

„Þegar hjálparvélar höfðu verið settar niður í vélarrúm Magna í vesturhöfninni og röralagnir í vélarrúmi komnar vel á veg, var komið að því að setja aðalvél skipsins í það. Aðalvélin var þýsk (Deutz, RBV 8M 545), 8 strokka, með forþjöppu, 1000 hestöfl við 375 snúninga á mínútu. Í kassanum vó aðalvélin, án sveifluhjóls, rúm 22 tonn. Hún var flutt til landsins með skipi frá Eimskipafélagi Íslands, en það skip hafði ekki bómu, sem gat lyft þessum þunga, og enginn krani var þá til við höfnina í Reykjavík, sem gat lyftvélinni frá skipi og í land. Varð því að miða komu skips Eimskips við það, að bandarískt skip á vegum varnarliðsins yrði statt í Reykjavík, þegar skip Eimskips kæmi til Reykjavíkur. Þetta tókst með ágætum, og var vélinni í kassanum lyft með þungalyftibómu bandaríska skipsins úr lest Eimskipafélagsskipsins og yfir á hafnarbakkann. Þegar svo kom að því að vélin skyldi sett niður í Magna var það gert með þungalyftibómu á Tröllafossi, sem þá var eina íslenska skipið, sem hafði nægjanlega mikla lyftigetu. Þá var Magni dreginn að hlið Tröllafoss, og vélinni lyft á sinn stað, og síðan sveifluhjóli aðalvélarinnar, sem einnig var býsna þungt. Að þessu loknu var Magni dreginn til baka að bryggjunni í vesturhöfninnni og þar haldið tengingu við röralagnir. Ennfremur var lokið vinnu við áfram vinnu við frágang á skipinu, festingu á aðalvél og rafkerfi, siglingatæki og innréttingar.“

Magni og Gullfoss.
Magni og Gullfoss.

Stöðug notkun í 32 ár

„Magni var síðan í stöðugri notkun hafnarinnar í 32 ár, frá 1955 til 1987, þegar aðalvélin bræddi úr sér vegna mannlegra mistaka. Sennilegt er talið að óvanur maður hafi af vangá lokað fyrir smurolíu til vélarinnar á leiðinni frá Hvalfirði til Reykjavíkur. Heita má að öll þessi ár hafi Magni verið eini dráttarbátur hafnarinnar. […]

Fyrstu árin var Magni mikið notaður til að flytja vatn út á ytri höfnina og dæla því um borð í stór skemmtiferðaskip. Síðar hafa mörg skemmtiferðaskipin getað lagst að hafnarbakka í Sundahöfn og þá tekið drykkjarvatn þar, en sum þessara skipa eru nú búin til að geta eimað ferskvatn úr sjó. Hinsvegar hefur Magni oft verið kallaður til að brjóta ís í og við Sundahöfn, enda byggður sem ísbrjótur. Sérstaklega var Magni mikið notaður einn vetur til að brjóta ís. Þá var farið fyrir skipum og brotin siglingarenna og síðan hreinsaður ís frá hafnarbökkunum. Um 1980 var sérlega mikill ís í sundunum og við Sundahöfn.

Magni var að mestu leyti bundinn við verkefni í nánd við Reykjavíkurhöfn og við sunnanverðan faxaflóa. Oft sótti Magni vélvana skip út á Faxaflóa og dró þau til hafnar, og mjög oft var hann í Hvalfirði við að aðstoða stór olíuflutningaskip við olíustöðina þar, og síðar var hann til aðstoða við skip eftir að járnblendiverksmiðjan tók til starfa við Grundartanga.“