Hermarnir voru gjöf frá Styrktarsjóði nemenda Stýrimannaskólans í Reykjavík sem nýlega var lagður niður. Hermarnir líkja eftir hraðskreiðum léttbát, lífbát og frífallandi lífbát. Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, segir þjálfun í venjulegum tækjum og tólum bundna af aðstæðum hverju sinni en með hermunum er hægt að breyta veðri, sjólagi og skyggni svo fátt eitt sé nefnt. Hægt er að gera mjög krefjandi æfingar í þeim án nokkurrar áhættu.
Stíga ölduna
„Þarna er vissulega ekki um raunverulegar aðstæður að ræða en engu að síður líkja hermarnir svo vel eftir raunveruleikanum að dæmi er um að menn verði sjóveikir. Nemendur setja upp sýndarveruleikagleraugu og æfa sig í aðstæðum sem ekki væri hægt að stýra í venjulegu skólahaldi. Þetta er svo raunverulegt að menn fara jafnvel að stíga ölduna. Nemendurnir eru svo auðvitað í öruggum aðstæðum öllum stundum,” segir Hilmar.
Einnig eru að ryðja sér til rúms hermar til þess að æfa slökkvistörf með brunaslöngum og möguleikar er til margvíslegra annarra æfinga í hermum. Hilmar segir að þeir komi þó ekki alveg í staðinn fyrir æfingar við raunverulegar aðstæður með raunverulegum búnaði en séu góð viðbót í skólahaldi Slysavarnaskólans.
Á óskalista
Hilmar segir að björgunarfarahermarnir hafi lengið verið ofarlega á óskalista Slysavarnaskóla sjómanna og draumurinn hafi ræst þegar honum barst þessi höfðinglega gjöf Styrktarsjóðsins. Hermarnir eru framleiddir í Kanada og til stóð að fulltrúar framleiðandans kæmu hingað til lands til að kenna á búnaðinn. Vegna heimsfaraldursins fór það allt saman í gegnum netið. Í framhaldinu sé verið að þjálfa sjómenn til að takast á við alls kyns aðstæður í gegnum sýndarveruleika í tölvum. Hermarnir eru þrír í sérútbúnum rýmum í Sæbjörgu, skipi Slysavarnaskóla sjómanna í Reykjavíkurhöfn.
„Hermarnir líka eftir þremur mismunandi gerðum báta. Nemendur sitja við stjórnbúnaðinn sem er nokkurn veginn staðlaður búnaður björgunarfara af öllum gerðum. Nemendur æfa stjórnun hraðskreiðs léttbáts sem ætlaður er til björgunar manna úr sjó við ýmsar aðstæður. Einnig er æfð stjórnun tveggja gerða lífbáta sem eru einungis í kaupskipum hér við land. Þetta eru lífbátar sem er slakað með davíðum í sjó og frífallandi lífbátar. Það er ákveðin æfing í því að sleppa bát og upplifa það að falla hátt í 30 metra ofan í sjó. Og menn finna alveg fyrir því í hermunum.“