Árneshreppur er ein afskekktasta byggð landsins, lengst norður á Ströndum þar sem „vegurinn endar“. Til að komast þangað akandi þarf að ferðast um fagrar eyðibyggðir eftir krókóttum malarveg hátt í hundrað kílómetra leið. Eftir um tveggja tíma akstur er loks maður kominn til Trékyllisvíkur, og þar er óvænt að finna nokkuð blómlega byggð með líflegri höfn í Norðurfirði, sem er inn af Trékyllisvík norðan megin. Tugir sjómanna stunda þaðan sjóinn hvert sumar, en búa þar þó ekki á vetrum.
„Það er mikið af bátum hérna frá bæði Hólmavík og Drangsnesi í Norðurfirði. Reyndar kannski ekki margir frá Drangsnesi, en einhverjir. En þeir eru nokkuð margir frá Hólmavík og eins og staðan er núna þá er einn bátur eftir inni á Hólmavík. Það er lélegt fiskerí hérna innfrá.“
Frá Norðurfirði er styttra á miðin og þar hafa þeir verið að fá stærðarinnar þorsk í verulegu magni dag hvern.
Aldrei séð annað eins
Hann segir veiðina hafa gengið óvenju vel í sumar.
„Ég byrjaði frekar seint að róa sjálfur í vor, en það hefur fiskast vel og verið góður fiskur það sem af er vertíð. Verðið er búið að vera mjög gott líka, maður hefur aldrei séð annað eins. En svo er það að dala aðeins núna.“
Strandveiðimenn hafa ekki verið bjartsýnir á að veiðiheimildir strandveiðitímabilsins dugi út ágústmánuð. Þótt rúmlega þúsund tonnum hafi nú verið bætt í pottinn telur Hlynur ólíklegt að það dugi til.
„Það dugar út svona megnið af júlí, er það ekki? Eru ekki að fara þúsund tonn á viku?“
Þangað til togararnir komu
„Annars hefur ágúst oft verið besti tekjumánuðurinn. Við erum farnir að róa á Hornbankann núna og maður er að taka skammtinn meira og minna í 5 og 8 plús af fiski. Þetta er tekjutíminn núna, en reyndar var þessi júnímánuður alveg ótrúlega góður. Við komumst í stóran fisk í Drangálnum, lágum í því þangað til togararnir komu og sópuðu þessu upp eina helgina. Það streyma líka inn í þetta bátar sem hafa aldrei verið á þessu áður, af því að verðið er búið að vera svo hátt. Nú fara bátar inn í þetta þó þeir séu með tíu tonna kvóta á sér og harka á þessu og fara svo bara í kvótann þegar þetta lokast.“
Hlynur segir samfélagið í Norðurfirði gott, en alls hafa 25 til 27 bátar verið að róa þaðan í sumar, og það hefur verið meira og minna sami hópurinn sem kemur ár eftir ár.
„Þetta er rosalega gaman, og þéttur og góður hópur. Við þekkjumst allir orðið en það er náttúrlega engin nýliðun í þessu. Það eru margir þarna komnir yfir 67 ára, hörkukarlar.“
Hlynur hefur verið á strandveiðum síðan 2012.
„Búinn að vera á sjó samt síðan maður var unglingur. Ég var togurum mikið, og svo er ég stýrimannslærður. En þegar ég kem út úr stýrimannaskólanum þá var það orðið þannig að maður fékk hvergi pláss í brú nema á einhverjum leigukvótabátum, og ég fékk bara ógeð á því og hætti. Ég hætti í mörg ár til sjós og tók einhver 11 eða 12 sumur í þangskurð í Breiðafirði.“
Væri nær að setja þak
„Æ, er ekki komið nóg af klúðrum,“ svarar Hlynur þegar spurt er út í áform ráðherra um að endurvekja svæðaskiptingu í strandveiðum. „Mér finnst þannig lykt af því að það verði eitthvað rugl á bak við það. Hvernig ætla þeir að skipta kvótanum? Það væri nær að setja bara þak.“
Þetta þak segir hann að gæti til dæmis verið eitthvað um 25 tonn eða svo.
„Menn rói 12 daga í mánuði og ef þú ert kominn í 25 eða 27 tonn, þá ertu bara úr leik. Af hverju prófa þeir það ekki? Í staðinn er það þannig að þeir sem eru á þeim svæðum sem liggja best við fyrir fiskgengd, þeir fá að moka öllu upp og hinir hafa lítið. Nú sitja þeir eftir þarna á c-svæðinu og ég finn alveg til með þeim. Við höfum verið í þessum sömu sporum líka meðan þessi svæðisskipting var, þá vorum við bara í sama aflamagni á bát og þeir. Þannig að ég er hræddur um að þeir eigi eftir að klúðra þessari svæðaskiptingu.“