„Þetta eru veruleg vonbrigði vegna þess að ungloðnumælingin fyrir einu og hálfu ári var sú þriðja stærsta í 40 ár. Sú loðna hefur þá annað hvort farist á leiðinni eða mælingin ekki verið rétt. En Hafró á eftir að gefa einhverjar skýringar á þessu,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar í Fáskrúðsfirði. Vænta má frekari upplýsinga á fjarfundi sem haldinn verður með uppsjávarútgerðum og Hafrannsóknastofnun klukkan 13 í dag.

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar í Fáskrúðsfirði.
Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar í Fáskrúðsfirði.

„Það stendur til að fara í leiðangur 10. febrúar og skoða hvort loðna sé við ísröndina. Þessi ráðgjöf er því væntanlega ekki endanleg ef loðna finnst þar.“

Hann segir erfitt að skjóta á verðmæti þess heildarkvóta sem fellur í skaut Íslands þar sem afurðaverð liggi ekki nákvæmlega fyrir.

„Þetta eru að sjálfsögðu mikil verðmæti. Við höfum gert mikið úr litlu og það fer nánast ekkert annað í bræðslu annað en það sem gengur af í flokkun. En ég held að allir hafi búist við því að eitthvað af öllu þessu magni af ungloðnu sem mældist fyrir einu og hálfu ári myndi finnast. Eitthvað af henni gæti verið undir ís,“ segir Friðrik Mar.

Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að loðnuafli á vertíðinni 2022/23 verði ekki meiri en 275 705 tonn, sem þýðir 57.000 tonna hækkun ráðgjafar frá þeirri sem gefin var út 4. október 2022.

Ráðgjöfin byggir á samanteknum niðurstöðum á mælingum á stærð veiðistofns í haustleiðangri (763 þús. tonn) og leiðangri sem fór fram dagana 23.-30. janúar (732 þús. tonn).

Mælingarnar í janúar voru gerðar á skipum Hafrannsóknastofnunar, r/s Bjarna Sæmundssonar og r/s Árna Friðrikssonar ásamt loðnuskipunum Jónu Eðvalds SF, Heimaey VE og Ásgrími Halldórssyni SF. Aðstæður til mælinga voru þokkalegar þessa daga og náðist yfir allt fyrirfram ákveðið rannsóknasvæði ef undan er skilið vestasti hlutinn. Þar hamlaði hafís yfirferðinni.

Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150 000 tonnum að teknu tilliti til afráns.