„Ég er búinn að vera lengi í þessu og þetta er styrjöld,“ segir Þórður Tómasson, eigandi fiskvinnslunnar Sætopps í Hafnarfirði. „Við erum alltaf að keppa við stóru útgerðirnar. En það sem fer verst í þessu núna eru þessir gámakarlar sem eru að kaupa fiskinn og senda hann út óunninn. Það er ekki alveg að ganga upp.“
Sætoppur er rótgróið fyrirtæki, stofnað árið 1995, var fyrst með aðstöðu á Grandanum við Reykjavíkurhöfn en er nú í Hafnarfirði. Þar vinna nú tíu manns og fyrirtækið hefur árum saman verið á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki. Hjá Sætoppi eru unnin um 2000 tonn á ári, allt handflakað.
„Eina vélin sem ég er með hérna er roðflettivél. Allt annað gert með höndum,“ segir Þórður. „Þetta fer aðeins hægar í gegn. En ég er aðallega í gæðum þannig að ég er ekkert endilega að moka þessu í gegn. Það liggur við að hverjum hnakka sé strokið áður en hann fer í kassann. Þetta snýst ekkert um að vera mjög stór, þetta snýst bara um að vanda sig.“

© Guðsteinn Bjarnason ([email protected])
Engin gullnáma
Sætoppur er lítil fiskvinnsla án útgerðar, kaupir allan fisk á markaði og selur megnið til Frakklands, Belgíu og Þýskalands.
„Ég kaupi allt á markaði og er þá með ákveðnar pantanir sem ég fylli upp í. Fasta og trygga kaupendur sem þekkja mig mjög vel, og ef það er dýrt þá er það dýrt og ef það er ódýrt þá er það ódýrt. Ef maður ætlar að vera eitthvað gráðugur þá er maður dottinn út strax. Þetta er engin gullnáma, en aðalatriðið er að hafa gaman af þessu.“
Litlu fiskvinnslufyrirtækin, sem eru án útgerðar, hafa átt erfitt uppdráttar síðustu árin. Þórður segir að þeim sé óðum að fækka. Tvær vinnslur í næsta nágrenni við Sætopp hafi lagt upp laupana á síðustu mánuðum
Stjórna lágmarksverðinu
„Það eru þessir gámakarlar sem eru að fara illa með litlar vinnslur á Íslandi. Einnig hefur það mikil áhrif á allar fiskbúðir á Íslandi að þessir gámakarlar stjórna lágmarksverðinu. Það er ástæðan fyrir þessum háu verðum í fiskbúðum. Maður skilur stundum ekki, þeir koma á markaðinn og maður er kannski að kaupa þorskinn á 500-600 kall og svo koma þeir allt í einu með 700 kall. Þannig að þetta er rosalega skrýtið umhverfi. Þetta virðist ekkert snúast alltaf um verð hjá þeim, ég veit ekki alveg hvað þeir eru að gera.“
Gríðarlegt magn fari óunnið frá landinu og ástandið hafi hríðversnað á allra síðustu árum.
„Þeir senda þetta út og þá fer þetta oft til Póllands, og þetta er allt niðurgreitt af ríkinu þar. Ég held að það eigi stóran hlut í þessu. En gæðin eru náttúrlega misgóð, þau geta verið góð en þau geta verið hræðilega léleg.“

© Guðsteinn Bjarnason ([email protected])
Þarf að hafa gaman
Þórður segir Sætopp þó alls ekkert á förum. Fyrirtækið hefur náð að halda sér á floti við erfiðar aðstæður, og skýringin er að sögn Þórðar kannski ekkert flókin.
„Ég er með góða kaupendur, og svo er hitt að ég nenni þessu. Maður þarf að hafa gaman af þessu sem við gerum og nenna að vakna á morgnana. En einhver sem ætlar að byrja á þessu í dag, hann á enga framtíð í þessu.“
Sætoppur hefur tryggt sér nauðsynlegar vottanir sem nú orðið eru óhjákvæmilegar þegar verið er að senda fiskinn á markað erlendis.
„Já, það er allt vottað orðið og þvílíkt pappírsfargan í kringum það. En annars myndu þeir ekki vilja fiskinn.“
Hálfgerður fíkill
Sólarhringurinn gengur sinn vanagang hjá Sætoppi, eins og hjá flestum vinnslum reyndar. Fiskmarkaðirnir fara af stað klukkan eitt eftir hádegi og Þórður kaupir þar það sem þarf í vinnslu dagsins. Þá taka flutningabílstjórar um allt land við og leggja af stað með fiskinn, sem er að berast inn í vinnsluna smátt og smátt, jafnvel langt fram á nótt eftir því hve langt er að keyra. Starfsfólkið mætir svo stuttu fyrir klukkan sjö að morgni og tekur til við að flaka og snyrta.
„Ég hef bara gaman af þessu þó þetta sé erfitt. Ef þetta væri auðvelt þá væru allir í þessu. Maður er hálfgerður fíkill þannig, það er alltaf gaman að það séu einhverjar brekkur í þessu.“
Hann segist engan áhuga hafa á því að stækka fyrirtækið, þótt það væri í sjálfu sér auðveldara heldur en að halda sig í smærri kantinum.
Þórður fór fyrst að vinna í fiski tíu ára gamall.
„Þá fór ég að vinna í fiskbúð með skólanum og síðan er ég búinn að vera í fiski. Ég var í fiskbúð í sjö ár og fór síðan að vinna í fiskverkun. Svo stofnaði ég sjálfur fyrirtæki árið 1995, og er eiginlega búinn að vera í þessu síðan. Tók smá frí og kom svo aftur.“