„Þetta er alveg geggjað,“ segir Guðlaugur Jónasson um upphaf fimmta strandveiðisumars síns.
Þegar rætt er við Guðlaug snemma dags í gær er hann þar sem heitir Keldan út af Hellissandi og er kominn með 500 kíló á tveimur eða þremur klukkustundum. Hann gerir út bátinn Hvítá HF 420.
„Almennt er búið að ganga nokkuð vel en tíðarfarið er erfitt,“ segir Guðlaugur. Á mánudag hafi menn komist út fyrir Nesið en það hafi ekki verið hægt í gær.
Veðurspá SFS standist ekki

„Þetta er bara fínt og ég kvarta ekki. Fiskurinn er mjög góður fiskur og verðið mjög gott. Þú mátt taka það fram að veðrið er ekki samkvæmt veðurspá SFS. Þeir reiknuðu með að við kæmumst alla 48 dagana en ég er að missa tvo daga bara í þessari viku. Þannig að veðurspáin og aflaspáin þeirra er ekki að ganga eftir,“ segir Guðlaugur sem kveðst hvorki sjá fyrir að hann komist á sjóinn miðvikudag og fimmtudag í þessari viku.
„Þetta er bara eins og það verður,“ bendir Guðlaugur á og kveðst mjög bjartsýnn á sumarið.
Steikti fyrsta fisk sumarins
„Ég er búinn að vera á þessum stóru skipum alla ævi og var nítján ár í Afríku. Nú er ég bara í þessu og þetta er bara það sem ég elska að gera,“ segir Guðlaugur sem býr í Hafnarfirði en er með íbúð á Rifi ásam nokkrum öðrum.
„Við löndum öllum aflanum hjá Alla í Sjávariðjunni á Rifi. Fiskurinn sem ég er að veiða í dag fer í vinnslu í fyrramálið og daginn eftir verður hann komið á borðið út í Frakklandi,“ segir Guðlaugar sem kveðst hafa tekið fyrsta strandveiðifisk sumarsins frá fyrir sjálfan sig. „Hann var steiktur á pönnu hjá okkur og var alveg geggjaður."
Stjórnar ekki veðrinu

Arnar Magnússon á Golu GK 41 úr Sandgerði hefur svipaða sögu að segja. Hann er staddur suður í Röst þegar tal næst af honum og er í óða önn að taka hvern þorskinn á fætur öðrum um borð. Hann kveðst hafa náð 700 kílóum í Bugtinni á mánudaginn þrátt fyrir leiðinda brælu.
„Þetta er stór þorskur, yfir tíu kílóa fiskur og ég er einmitt að taka hér einn sem er um fimmtán kíló,“ lýsir Arnar aflanum sem hann landar í Sandgerði. Hann segir gott verð hafa fengist á mánudaginn um 540 krónur á kíló fyrir stóran fisk.
„Þetta byrjar vel en núna er að spáð suðvestan leiðinda veðri svo það er spurning hvort það verður hægt að róa eitthvað meira í vikunni. „Og þá er ekkert hægt að “gera neitt og það verður bara að taka því. Maður stjórnar ekki veðrinu.“