Aflaheimildir 14 sjávarútvegsfyrirtækja í Vestmannaeyjum verða skertar um 15.500 þorskígildistonn á fimmtán árum, þar af um 7.500 þíg-tonn strax á fyrsta árinu, ef Alþingi samþykkir frumvörp ríkisstjórnarinnar um afnám núverandi skipulags í sjávarútvegi.
Þetta er niðurstaða útreikninga sem miðast við meðaltal aflaheimilda þessara fyrirtækja síðustu tvo áratugina. Skerðingin svarar til 150-160 starfa við veiðar og vinnslu í Eyjum.
Þetta jafngildir því að landvinnsla Vinnslustöðvarinnar, stærsta fiskvinnslufyrirækis Vestmannaeyja, verði lögð af eða flutt frá Eyjum.
Þessar upplýsingar komu fram á blaðamannafundi sem Útvegsbændafélag Vestmannaeyja og Útvegsmannafélag Austfjarða efndu til í Reykjavík í gær.
,,Þetta er árás á Vestmannaeyjar!" sagði Stefán Friðriksson formaður Útvegsbændafélags Vestmannaeyja á fundinum. ,,Kjarni málsins er sá að gera á aflheimildir fyrirtækja í Vestmannaeyjum upptækar sem nemur 7-9 milljörðum króna á ári."