Mjög góð loðna berst nú að landi í Neskaupstað að því er fram kemur á vefsíðu Síldarvinnslunnar.
Barði NK kom til Neskaupstaðar snemma í morgun með rúmlega 300 tonn af loðnu. Vinnsla á loðnunni hófst þegar í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.
„Við fengum þessa loðnu fyrir norðan land, nánar tiltekið í Reykjarfjarðarálnum út af Ströndum. Við köstuðum líka við Snæfellsnes en þar var loðnan hryngd og við fengum nánast einungis kall þar. Það var kastað þrisvar í Reykjafjarðarálnum og þar fékkst stór og falleg loðna og í prufum sem teknar voru reyndist vera um 60% hrygna. Hrognafyllingin var um 19%. Þetta er því örugglega fínasta hráefni fyrir vinnsluna,” er haft eftir Þorkeli Pétursyni, skipstjóra Barða ásvn.is.
Polar Amaroq landar í kvöld
Þá segir að grænlenska skipið Polar Amaroq sé væntanlegt til Neskaupstaðar í kvöld með 485 tonn af loðnu sem Geir Zoёga skipstjóri segi að hafi fengist í Reykjafjarðarálnum á sömu slóðum og Barði var að veiðum.
„Þetta er falleg Japansloðna sem við erum með, 60% hrygna. Það var virkilega skemmtilegt að fá þessa gæðaloðnu þarna út af Ströndunum. Nú erum við búnir með okkar hlutdeild í grænlenska loðnukvótanum. Þetta var stysta loðnuvertíð sem maður hefur upplifað,” er haft eftir Geir.
Hrognafyllingin er 19 til 20 prósent og hátt hlufall hrygnu
Einnig er á heimasíðu Síldarvinnslunnar rætt við Karl Rúnar Róbertsson, gæðastjóra í fiskiðjuverinu, sem segir loðnan sem nú sé verið að vinna sé gæðahráefni.
„Þetta er alger úrvalsloðna, stór og falleg. Hrognafyllingin er 19 – 20% og það er hátt hlufall hrygnu í aflanum eða um 60%. Það er verið að frysta hrygnuna á Japan og hænginn á Austur-Evrópu og það gengur býsna vel,” er haft eftir Karli Rúnari á svn.is.