Frystitogarinn Þerney RE kom til hafnar í Reykjavík snemma í morgun eftir 38 daga úthald. Skipið var að veiðum í norskri lögsögu og aflinn á þeim rúmlega 31 degi frá því að fyrsta holið var tekið og þar til að veiðum lauk er 1.270 tonn af fiski upp úr sjó. Það samsvarar um 665 tonnum af afurðum og aflaverðmætið er 400 milljónir króna (FOB).

Kristinn Gestsson skipstjóri segir í viðtali á vef HB Granda að veiðarnar hafi aðallega verið stundaðar á vertíðarsvæðinu út af Lófót í Norður-Noregi og uppistaða aflans rígvænn veríðarþorskur.

,,Við erum með um 970 tonn af þorski upp úr sjó en annar afli er mest ýsa, dálítið af ufsa og um tvö tonn af löngu. Aðrar afurðir en fryst þorskflök standa fyrir um 30% aflaverðmætisins. Ýsan vegur þar þungt en við erum með um 105 tonn af fiskmjöli, sem framleidd voru úr hausum og hryggjum, og um 50 tonn af hrognum. Lifrina getum við ekki nýtt enn sem komið er til framleiðslu á lýsi en það stendur til bóta,“ segir Kristinn.

Sjá nánar á vef HB Granda.