Fjöldi íslenskra skipa er nú við makrílveiðar í Síldarsmugunni og hefur fiskast vel undanfarna sólarhringa. Í gær voru ein tólf skip í Smugunni en auk þess fjöldi rússneskra skipa sem og nokkur grænlensk og færeysk skip. Þar var einnig Þerney RE 1 við makrílveiðar en skipið, sem áður hét Ilivileq og er í eigu Brims, er þekktara sem frystitogari sem vinnur bolfisk.

Árni Gunnólfsson skipstjóri lét vel af sér og áhöfninni þegar rætt var við hann í gær. Þó var aðeins farið að bræla á þessum slóðum en veiðin hafði gengið alveg hreint ágætlega síðustu daga. „Við byrjuðum hérna í sumar og höfum landað tvisvar sinn um á Vopnafirði,“ segir Árni.

Árni Gunnólfsson skipstjóri.
Árni Gunnólfsson skipstjóri.

Aflinn er heilfrystur um borð og ekki stendur til að halda í land fyrr en lestin er orðin full. Hún tekur um 1.000 tonn. Þerney hefur mest verið við bolfiskveiðar en Árni bendir á að skipið hafi veitt mikið af makríl þegar það var á grænlensku flaggi og hét Ilivileq. Landað var um 1.000 tonnum af frystum makríl á Vopnafirði úr Þerney rétt fyrir mánaðamótin.

Stór makríll

„Síðustu daga hefur verið mjög góð veiði. Vertíðin byrjaði reyndar illa en nokkra undanfarna daga hefur verið hörkufín veiði hérna í Síldarsmugunni. Við erum komnir með á milli 500 til 600 tonn í lestina eftir sex daga á veiðum,“ segir Árni.

Meðalþyngd makrílsins sem Þerney hefur verið að fá er rétt um 500 grömm. Hann hefur verið tiltölulega átulaus að mestu leyti. Árni segir þetta góðan fisk til manneldis. Ólíkt öðrum skipum í uppsjávarflotanum, sem landa makrílnum óunnum á Íslandi, er allt fryst um borð í Þerney. „Við erum því bara á veiðum þar til við vonandi fyllum lestina. Í augnablikinu lítur þetta ágætlega út en núna er farið að bræla og vonandi leiðir það ekki til þess að veiðin detti alveg niður,“ segir Árni.