Fjölskyldufyrirtækið Beitir ehf. í Vogum á Vatnsleysuströnd stendur í ströngu þessa dagana í Petty Harbour á Nýfundnalandi. Þar er verið að setja niður í sjöunda bátinn línu- og dekkbúnað sem fyrirtækið smíðar heima úr ryðfríu stáli. Þar eru hjónin og eigendurnir Hafsteinn Ólafsson og Þóra Bragadóttir ásamt syni þeirra, Jónasi Braga og dætrunum Hrafnhildi og Brynhildi, sem starfa einnig hjá fyrirtækinu.
Beitir hefur lengi verið með annan fótinn á Nýfundnalandi. Fyrstu verkefnin þar voru í byrjun aldarinnar en þá hafði verið lokað fyrir þorskveiðar á grunnslóð út að 60 mílum við landið í um tólf ár. Hugmyndin þá var að leyfa takmarkaðar línuveiðar á grunnslóð. Fyrirtækið seldi talsvert af línuspilum áður en stjórnvöld tóku skyndilega þá ákvörðun að loka fyrir allar veiðar á ný næstu 12-13 árin. Þannig hafa nú liðið nærri þrír áratugir síðan þorskveiðar voru stundaðar við Nýfundnaland.
Nú er verið að opna fyrir veiðarnar í áföngum. Verkefni Beitis núna komust á koppinn fyrr á árinu og hefur gengið vonum framar að framleiða og setja búnaðinn niður í bátana sem flestir hafa stundað gildruveiðar við Nýfundnaland. Þar, eins og víðar, eru sérstök lengdartakmörk á bátum og því hafa eigendur báta mætt með því að hafa þá alla á breiddina. Þetta kallar á sérsmíði og sérstakar útfærslur á búnaðinum frá Beiti sem allur er smíðaður í Vogum.
10 milljónir kr. í styrk
Stjórnvöld í Kanada hafa ákveðið að stíga varfærin skref í þorskveiðum á grunnslóð, minnug þess að stofninn við Nýfundnaland hrundi í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar en hafði fram að því verið einn sá arðbærasti í sögunni. Stjórnvöld styrkja útgerðarmenn sem sannarlega hafa gert út til veiða til að kaupa búnað til línuveiða, allt upp í 100.000 kanadadollara á bát, rúmar 10 milljónir ISK. Styrkurinn er til marks um vilja stjórnvalda að fiskurinn sé veiddur á línu, sem þau skilgreina sem grænar veiðar, og svo hitt að ef loka þyrfti á ný fyrir veiðarnar yrðu engir eftirmálar því stjórnvöld greiða fyrir allan línubúnaðinn. Útgerðarmenn bera einungis kostnað við niðursetninguna. Sömuleiðis er miklum opinberum fjármunum varið í uppbyggingu landvinnslunnar á þessum slóðum með sams konar styrkjum.
„Það eru ekki miklir peningar hérna í Petty Harbour ennþá en það á vonandi eftir að breytast. Kvótinn er skammtaður eftir því hvað vinnslan getur unnið og afkastageta hennar er mjög takmörkuð. En það er samt allt á réttri leið og tæki og búnaður að bætast við, meðal annars flökunarvélar frá Curio svo dæmi sé tekið. Það er ekkert sem bendir til þess að lokað verði fyrir veiðarnar á ný. Hérna er mokveiði og bátarnir eru að taka þessi fjögur til sjö tonn sem þeir mega veiða yfir vikuna í einni veiðiferð,“ segir Hafsteinn.
Beitir hefur smíðað heildstæðan búnað í bátana og sett niður, þ.e.a.s. uppstokkara, beitningatrektir, línuspil, beituskurðarhnífa, línurennur og blóðgunarkör, búnað eins og gerist best í línubátum á Íslandi. Búnaðurinn fer í notaða báta og þarf því talsverða útsjónarsemi bæði við smíðina og niðursetninguna. Þetta eru stuttir gildrubátar og allt að 7-8 metra breiðir. Bátarnir halda gildruveiðum áfram á snjókrabba og humri samhliða línuveiðum og þarf því að vera hægt að taka línubúnaðinn í land. Hafsteinn segir að þarna sé talsverður fjöldi báta gerður út allt árið af myndarskap en síðan sé líka talsverður fjöldi manna sem virðast ekki vera í þessu af mikilli alvöru.
„Þessa dagana eru bátarnir á humarveiðum sem er auðvitað lang verðmætasta tegundin. Þeir mega fara út með tiltekið magn af gildrum hver bátur og mega veiða allt sem í gildrurnar kemur. Um miðjan ágúst verður síðan gefinn út þorskkvóti og heimilt er að veiða hann fram undir jól eða þar til tíðin fer að verða leiðinleg.“
Beitir er að setja niður búnað í tvo báta sem eru í eigu feðganna Michael og David Hickey. Þeir fá kvóta á báða bátana en er samt heimilt að veiða allan kvótann á annan bátinn.
Íslenskur skipstjóri kennir
Framundan eru fleiri verkefni en útgerðir kaupir búnaðinn af Beiti með þeim fyrirvara að þeim berist styrkur frá hinu opinbera.
Vegna þess hve langt er liðið frá því þorskveiðar voru stundaðar við Nýfundnaland hefur þekking á línuveiðum tapast með einni kynslóð.
„Það er mikil saga um línuveiðar hérna fyrir margt löngu síðan en þessi þekking hefur glatast. Þess vegna hefur Arnar Laxdal, skipstjóri á Særifi SH komið með okkur hingað út og kennt heimamönnum réttu handtökin. Þeir voru ánægðir með þetta og voru fljótir að tileinka sér vinnubrögðin.“
Heimamenn nota smokk í beitu af Halifax svæðinu og líka síld sem þeir veiða í reknet. Síldina nota þeir líka í humar- og krabbagildrurnar. Fiskverð er lágt á þessum slóðum og fást ekki nema 170-200 kr. fyrir kílóið af aðgerðum fisk. Hann fer mest í innanlandsneyslu, aðallega „fish and chips“ sem er algengur skyndibiti þarna. Hafsteinn segir að áhöfn bátanna þurfi sjálf að borga fyrir ís og þess vegna er enginn ís tekinn í túrana. Margt er því enn með öðrum hætti í fiskveiðum við Nýfundnaland en við Ísland. Hafsteinn kveðst fullviss um að veiðar og vinnsla á þessum slóðum eigi eftir að taka stórstígum framförum með stuðningi stjórnvalda, breyttu útgerðarmynstri og viðhorfum.
Brúðkaup á bryggjunni
„Það læddist að okkur grunur að eitthvað sérstakt stæði til þegar við vorum beðnir um að þrífa sérstaklega vel allt í bátnum sem við vorum að vinna í. Það kom síðan á daginn þegar slegið var upp brúðkaupi á bryggjunni næsta dag. Sonur útgerðarmannsins var að gifta sig. Á bryggjunni voru samankomin um 200 manns og prestur og allt tilheyrandi. Veislan var mikil og glæsileg og hún stendur eiginlega enn yfir. Hérna er haldið upp á brúðkaup með þriggja daga veislu og hátíðarhöldum. Náð er í lifandi humar og öllum gestum á bryggjunni boðið í veislumatinn. Það eru allt aðrar hefðir í kringum svona viðburð en við þekkjum að heiman. Þetta var eiginlega rúsínan í pylsuendanum fyrir okkur sem erum hérna úti,“ segir Hafsteinn.