Fyrir miðja öldina gætu Norðmenn framleitt 20 milljónir tonna af þangi og þara á ári að verðmæti um 40 milljarðar norskra króna, eða sem samsvarar um 610 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í frétt á vef norska síldarsamlagsins.
Norðmenn sjá fyrir sér að þessi framleiðsla skiptist nokkuð jafnt á milli uppskeru á þara í náttúrunni og ræktun á þara í tengslum við fiskeldi. Um 60% af fóðrinu sem eldislax étur kemur frá honum sem úrgangur. Bent er á að húsdýraáburður sé notaður við matjurtarækt og það sem laxinn skilar frá sér ætti að geta komið að sömu notum til ræktunar á þara, annaðhvort til manneldis eða til fóðurframleiðslu. Hér sé bæði um vistvæna og hagkvæma starfsemi að ræða fyrir laxeldisfyrirtæki.
Á svæði sem er á stærð við fótboltavöll er hægt að rækta þara sem gefur 25 tonn af þurrefni. Til samanburðar má nefna það að sama svæði gæti gefið af sér um 4 til 5 tonn af korni.
Norðmenn framleiða nú um 200 þúsund tonn af þara á ári sem tekinn er af hafsbotni. Talið er að hægt sé að auka þá framleiðslu þannig að hún verði um 4 milljónir tonna fyrir árið 2030. Þess má geta að heimsframleiðslan á þara er nú um 30 milljónir tonna.