Metfjöldi af hnúðlöxum gerði vart við sig í Noregi í sumar og töluverð aukning virðist hafa orðið á Íslandi í göngum hnúðlaxa.

Gunnar Davíðsson, sjávarútvegsfræðingur og deildarstjóri í auðlindadeild Tromsfylkis, segir hnúðlaxi vera að fjölga mikið í Norður-Noregi og að hann virðist þrífast vel í ám þar. Þetta kemur fram í jólablaði Fiskifrétta.

„Norðmenn vilja útrýma honum, enda framandi tegund sem ekkert hefur í vistkerfinu hér að gera, í raun alveg eins og Kamtsjakakrabbinn sem kom frá Rússlandi fyrir um tveimur áratugum síðan. En kóngakrabbinn eins og Norðmenn kalla hann er orðinn gífurlega verðmæt auðlind sem skapar miklar tekjur og störf sérstaklega á strjálbýlum svæðum næst landamærum Rússlands og sem enginn eða mjög fáir vildu án vera,“ lýsir Gunnar stöðunni.

Íslendingar veiði væntanlega hnúðlax í sjó

Þá segir Gunnar að vitað sé að hnúðlaxinn sé mikið góðgæti, hollur og tiltölulega auðveiddur, enda gangi hann í torfum.

„En þá þarf að veiða hann áður en hann gengur. Íslendingar munu væntanlega taka á þessu máli með sjávarveiðum þótt það sé mikill mótþrói gagnvart því í Noregi. En allar aðgerðir, þar með talið veiðar eru á koppi umhverfisyfirvalda sem ekkert vita um fiskveiðar annað en veiða og meiða með krók eða flugu. Það er ekki ólíklegt að hnúðlaxinn  verði að auðlind eins og kóngakrabbinn,“ segir Gunnar.

Gunnar segir þó að lítið sé vitað um hugsanleg neikvæð áhrif hnúðlaxins á villta stofna Atlantshafslax enda hrygni hnúðlaxinn fyrr. En þetta þurfi auðvitað að rannsaka.