Mikil uppbygging er framundan í landvinnslu víða um heim en þó sérstaklega í Bandaríkjunum, Alaska og Rússlandi. Tengist það jafnt áherslu sem þessar þjóðir leggja á sjálfbærni í vinnslu á eigin auðlindum en ekki síður því að minnka kolefnisfótspor þessa iðnaðar. Marel er einn af stærri framleiðendum tæknibúnaðar fyrir matvælavinnslu og sjávarútvegsarmur fyrirtækisins sér mikil tækifæri til vaxtar.
Sigurður Ólason settist í stól framkvæmdastjóri Marel Fish fyrir þremur árum og hefur fylgt helstu nýjunginni, Flexicut vatnskurðarvélinni, úr hlaði. Fjölmargar fiskvinnslur jafnt innanlands sem erlendis hafa stórlega bætt nýtingu og vinnsluhraðann með þessari nýju tækni. Sigurður segir pantanastöðu hjá Marel fara stöðugt vaxandi. Mikil eftirspurn er eftir lausnum fyrirtækisins á heimsvísu.
Markaðurinn allur heimurinn
„Við erum með stóran markað í Bandaríkjunum og einnig á Norðurlöndum og í Evrópu. Þetta eru okkar stærstu markaðir í sölu á fiskvinnslutækjum. Chile er okkur einnig mikilvægur markaður hvað varðar eldislaxinn,“ segir Sigurður.
Sjávarútvegsarmur Marel hefur þróað vinnslulausnir fyrir bolfisk og lax en ekki fyrir uppsjávarfisk. Þó hafa önnur vinnslukerfi fyrir uppsjávarfisk nýtt sér tæknilausnir frá Marel eins og til dæmis vigtir og fleira.
„Við einbeitum okkur að lausnum sem lúta að vinnslu á Atlantshafslaxi. Við erum líka með teymi í Seattle í Bandaríkjunum sem selur tæknilausnir fyrir vinnslu á villtum laxi í Alaska. Þessu til viðbótar erum við með lausnir fyrir hvítfisk og þar er okkar markaður heimurinn allur.“
Mikil endurnýjun framundan í Bandaríkjunum
Sigurður segir að talsverð viðhorfsbreyting hafi orðið á heimsvísu til kolefnisfótspors matvælaiðnaðarins. Bandarískur almenningur hafi þannig sett þrýsting á stóru matvælafyrirtækin að minnka kolefnisfótspor sín.
„Þetta hefur í för með sér, svo dæmi sé tekið, að flutningur á sjávarafurðum frá Alaska til vinnslu í Kína og aftur vestur til neytenda, hefur stórlega minnkað. Fyrir utan kolefnisfótsporið hefur fjárbindingin í þessum flutningsleiðum verið gríðarleg. Það er því lykilatriði fyrir iðnaðinn að geta framleitt afurðir úr aflanum nær markaði eða nær veiðunum. Bandaríkjamenn hafa verið að vakna upp við það að þær vinnslulausnir sem þeir hafa byggt á eru ekki í takt við nýjustu tækni. Þeir hafa litið til þess sem við höfum verið að gera í Evrópu og vilja fá þær lausnir til sín. Framundan er talsverð endurnýjun á eldri verksmiðjum og þar stöndum við ágætlega að vígi. Fiskistofnar Bandaríkjanna í Alaska eru sterkir en Bandaríkjamenn hafa áhuga á því að koma afurðunum eftir öðrum leiðum inn á markaðinn og þar er lykilorðið sjálfvirkni,“ segir Sigurður.
Tækifæri í Rússlandi
Í Noregi fer einnig fram mikil endurnýjun hjá stórum fiskeldisfyrirtækjum sem Marel kemur að. Á öðru stigi í vinnslu á laxi kynnti Marel nýverið nýjan hausara sem bætir nýtinguna um 2% miðað við þær vélar sem hafa verið notaðar til þessa. Miðað við allt framleiðslumagnið einungis í Noregi skilar 2% aukning í nýtingu gríðarlegum verðmætum.
„Við erum að vinna í samstarfi við Leroy í Noregi að þróun tímamótaverksmiðju. Þetta er stór verksmiðja sem við setjum upp í maí á næsta ári,“ segir Sigurður.
Þá er Rússlandsmarkaður ótalinn sem er afar stórt og dreift markaðssvæði. Sigurður segir framundan mikla uppbyggingu þar en hún muni að líkindum taka langan tíma. Þar stefna stjórnvöld að því að landið verði sjálfu sér nægt með framleiðslu á sjávarafurðum en fram til þessa hefur stór hluti fiskaflans verið sendur til vinnslu í Kína með tilheyrandi kolefnisfótspori.
„Í Múrmansk var sett upp stór verksmiðja með nýjustutækni frá Marel og Skaganum 3X. Rússarnir eru því farnir af stað í sína endurnýjun en það mun taka sinn tíma. En þarna liggja klárlega mörg tækifæri.“
Aukningin verður í fiskeldi
Sigurður segir að staða og framtíðarhorfur Marel lofi góðu. Að teknu tilliti til þróunar á mannfjölda sé mikil spurn eftir aukinni tæknivæðingu framundan. í
„Í dag telur mannkynið 7 milljarða og það stefnir í að verða 10 milljarðar árið 2050. Hvernig munum við tryggja næga fæðu fyrir þennan aukna fjölda munna. Dýraprótein kemur úr kjöt, fisk og fuglakjköti. Fiskveiðar hafa verið stöðluð stærð undanfarin 20 ár og koma ekki til með að aukast að ráði en með góðri stýringu geta þær staðið í stað. Öll aukningin og vöxturinn framundan er í fiskeldi. Lausn virðist í sjónmáli hvað varðar fiskeldi í úthafinu. Einnig er horft til eldis á tilapiu sem mikillar uppsprettu próteins til framtíðar. Tilapia er mjög staðlaður fiskur og tiltölulega auðvelt að ala hann. Eldi af þessu tagi er víða um heim, t.a.m. í Kína og Brasilíu. Við vitum af verkefnum þar sem stórir aðilar, eins og til dæmis Greenfield Natural Meat Company, vilja taka tilapiu eldi upp á næsta stig. Í dag er eldið of dreift um heiminn til að komast á þann stærðarskala sem væri mögulegur. Starfsemi eins og þessi kallar á sjálfvirkni í framleiðslu, eins og í fiski, kjúkling og kjöti, og þar er Marel í lykilstöðu.“
Flexicut
Um 560 manns vinna hjá Marel í Garðabænum en framleiðslueiningar eru úti um allan heim. Sjávarútvegsarmur Marel hefur höfuðstöðvar sínar í Garðabæ en að auki eru starfstöðvar í Stövring í Danmörku og Seattle í Bandaríkjunum auk s sölumanna um allan heim.
Í Garðabænum fer fram vöruþróun og framleiðsla á tækjum. Sigurður segir að hugmyndir að nýjum lausnum verði oft til í samskiptum við viðskiptavinina. Eitt af þeim tækjum sem nýlega hafa komið á markað er Flexicut vatnskurðarvélin. Með henni er hvert einasta flak röntgenmyndað, beingarðurinn fjarlægður og flakið bútað nákvæmlega niður. Nákvæmni í skurði er mikil og nýting á hverju flaki stórlega eykst. Marel og tæknifyrirtækið Valka komu fram með svipaðar útfærslur á vélum á svipuðum tíma en áður hafði bandaríska tæknifyrirtækið DSI kynnt þessa tækni. En á þeim tíma var framleiðslukostnaðurinnof hár til þess að tæknin næði mikilli útbreiðslu. DSI er nú í samstarfi við Baader sem innan skamms kynnir nýja vatnskurðarvél.
„Ástæðan fyrir því að við hófum framleiðslu á Flexicut er sú að íhlutirnir og tæknin sem slík er komin niður á viðunandi verð. En við þrífumst á samkeppni og hún er af hinu góða. Meðan við trúum á það sem við erum að gera óttumst við ekki samkeppnina og lítum þannig á að hún sé góð til þess að halda okkur vakandi. Samkeppnin felst líka í því að vita hvort keppinauturinn hafi upp á eitthvað að bjóða umfram það sem þú getur sjálfur boðið og hvernig hægt sé að jafna það út. En svo fer baráttan líka fram á leikvangi þar sem margar lausnir eru varðar einkaleyfum. Það þarf því að þróa svipaðar lausnir og best er auðvitað að vera fyrstur til út á markaðinn. Til þess að þetta gangi upp þarf mjög gott net og góð tengsl við viðskiptavinina. Stefna fyrirtækisins þarf líka að liggja ljós fyrir til margra ára. Varðandi það úrlausnarefni sem fylgir fólksfjölguninni þá er það lykilatriði að fyrirtæki eins og Marel og matvælaframleiðendur séu samstíga í átt til framtíðar. Matvælaframleiðendurná aldrei einir að brauðfæða heiminn. Þeir hafa hráefnið en ekki tæknina sem þarf til að bæta framleiðni og nýtingu. Þess vegna verður fyrirtæki eins og Marel að vera í samstarfi við matvælaframleiðendur. Við höfum verið í samstarfi við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem hafa leyft okkur að fara inn í vinnslurnar og umbylta þeim. Þessu fylgir mikill kostnaður og áhætta. En þetta bakland er lykillinn að því sem Marel er í dag og ástæðan fyrir því að við getum verið með vöruþróun hér á landi.“
Ætla að vaxa
Önnur ný tækni frá Marel eru róbótalausnir sem fyrirtækið ætlar að kynna á „Whitefish ShowHow“, sýningu sem haldin verður í sýningar- og ráðstefnuaðstöðu Marel í Kaupmannahöfn 28. september. Róbótar eru þekktir í kjöt- og kjúklingaiðnaði en þetta er nýjung í vinnslu á laxi.
Sjávarútvegsarmur Marel er 13% af stærð fyrirtækisins, kjötarmurinn 35% og kjúklingaarmurinn 52%. Fiskhlutinn hafði verið svipaður að stærð og kjöthlutinn en með kaupum Marel á hollenska fyrirtækinu MPS í nóvember 2015 og nú síðast á brasílska fyrirtækinu Sulmaq, breyttust hlutföllin.
„Við erum litli karlinn núna. En það er vöxtur framundan, hvort sem það verður innri vöxtur eða ytri vöxtur með kaupum á fyrirtækjum. Við þurfum að vaxa og ætlum okkur að vaxa hraðar en markaðurinn. Það þarf ákveðna stærð til þess að sinna þessum markaði út um allan heim.“